Eins og áður hefur komið fram átti Ísland þrjá keppendur á Evrópumeistaramóti ungmenna sem fram fór í Durres, Albaníu 28.Október til 4.Nóvember. Öll úrslit má nálgast hér: https://www.easywl.com/ALB_2025/index.php
Tindur Elíasen (f.2005) varð í 18.sæti í -88kg flokki karla 20 ára og yngri, hann snaraði best 122kg og jafnhenti 135kg, samanlagt 257kg. Þetta var fyrsta stórmót Tinds. Snörun, jafnhendingin og samanlagður árangur voru ný íslandsmet bæði í flokki 20 ára og yngri sem og 23 ára og yngri.
Þórbergur Ernir Hlynsson (f.2005) féll úr keppni í -110kg flokki karla 20 ára og yngri. Hann snaraði 140kg, reyndi svo tvisvar við 145kg. Í jafnhendingunni glímdi hann við svima og munaði litlu að illa færi þegar hann féll 2x á pallinn. Þórbergur hefur verið á mikilli siglingu síðastliðið ár og farið upp úr 95kg í tæp 110kg, það er vonandi að hann jafni sig fljótt og að við fáum að fylgjast með honum fylla vel út í 110kg flokkinn.
Thelma Mist Oddsdóttir (f.2002) keppti í -58kg flokki kvenna 23 ára og yngri. Hún gerði vel of fór í gegn með 5/6 lyftum. Hún snaraði 70 og 73kg, og jafnhenti 85, 88 og 91kg. Jafnhendingin var bæting um 1kg á hennar besta árangri. Þessi árangur dugði henni í 9.sæti í flokknum. Einnig setti hún ný íslandsmet í flokki 23 ára og yngri.
Nokkrar myndir út keppninni má sjá hér að neðan, landsliðsþjálfari í ferðinni var Sigurður Darri Rafnsson og Erla Ágústsdóttir var honum til aðstoðar:
Erla Ágústsdóttir lauk keppni í dag í +86 kg flokki kvenna á HM sem fram fer í Noregi um þessar mundir. Erla varð í 14. sæti með bætingum í öllum lyftum, hún byrjaði snörun á að lyfta 100 kg, fór svo í 103 kg sem var keppnis bætingu um 1 kg, og 1 kg meiru en hún lyfti á HM 2024. Í þriðju tilraun fór hún í 106 kg og bætti sig því alls um 4 kg í keppni. Í jafnhendingunni opnaði hún á 118 kg, því næst fór hún í 122 kg sem var 2 kg bæting og fékk þá lyftu gildu. Síðasta tilraunin var 125 kg og náði hún ekki að fá hana gilda en 228 kg í samanlögðum árangri niðurstaðan og bæting í samanlögðum árangri um 7kg en áður var besti árangur Erlu á HM 2024 þar sem hún endaði í 13. sæti.
Hin suður-kóreskaPark Hyejeong vann flokkinn með 125 kg/158 kg, Kúbverjinn MarifelixSerria Ruiz varð önnur með 118 kg/157 kg og bandaríska konan Marie Anne TheisenLappen þriðja með 115 kg/154 kg. Hin kínverska Linhan Zhu varð nokkuð óvænt í 5. sæti eftir að hún klikkaði tvisvar sinnum í jafnhendingu og sat því eftir með 116 kg í snörun og 140 kg í jafnhendingu.
Erla Ágústsdóttir með 103 kg í snörunErla Ágústsdóttir með 122 kg í jafnhendinguErla Ágústsdóttir kynnt til leiks í Førde í NoregiIngi Gunnar Ólafsson landsliðsþjálfari hefur staðið vaktina í Noregi ásamt Indíönu Lind Gylfadóttur
Mótinu er nú lokið og má segja að einskonar hápunktur hafi náðst þegar Solfrid Koanda keppti í -86 kg flokki kvenna á fimmtudaginn og sigraði eftir harða baráttu við Yudelina Mejia Peguero frá Dómíníska lýðveldinu yfir kjaftfullum sal 1.700 áhorfendur og bæði voru konungur Noregs Haraldur fimmti og forsætisráðherran Jonas Gahr Störe (sjá frétt Nettavisen) meðal áhorfenda.
Solfrid ásamt Haraldi V Noregskonungi (mynd iwf.sport)
Keppnin í -94 kg flokki karla á sama degi var einnig hápunktur karla keppninnar þar sem Búlgarska undrið Karlos Nasar vann til baka 9 kg forskot Írananas Alireza Moeini eftir snörun með því að lyfta nýju heimsmeti í jafnhendingu 222 kg. Alireza hafði lyft heimsmeti 182 kg í snörun. Ólympíumeistarinn frá 2016Kianoush Rostami keppti í fyrsta sinn fyrir Kósovó en hann hefur um árabil verið út í kuldanum í Íranska landsliðinu eftir nokkuð opinberar deilur við sambandið, Rostami varð í 5. sæti í flokknum en fyrrum landi hans Ali Alipour varð fjórði og því „3“ Íranir í fyrstu 5 sætunum.
Karlos Nasar í ham (mynd IWF)
Norður Kórea vann flest gullverðlaun á mótinu en allir fimm keppendur þeirra í kvennaflokki unnu gullverðlaun. Í karlaflokki unnu þeir 3 silfur og 1 brons því aðeins einn af þeirra keppendum sem ekki vann til verðlauna. Kínverjar voru með einhverja lélegustu frammistöðu í langan tíma og einungis 1 gullverðlaun og 1 bronsverðlaun en þeir unnu til 5 gullverðlauna í París 2024.
Evrópulönd voru með 4 gull (Búlgaría, Noregur, Tyrkland, Armenía), 1 silfur (Rúmenía) og 1 brons (Moldóva).
Listi yfir skiptingu verðlauna (samanlögðum árangri). Einnig eru veitt verðlaun í snörun og jafnhendingu en þau eru ekki talin upp hér.
Guðný Björk Stefánsdóttir keppti í dag í -77 kg flokki kvenna á HM í Noregi, Guðný keppti í C-hóp þar sem hún varð þriðja en endaði í 21. sæti í heildarkeppninni. Guðný fór með allar þrjár snaranirnar sínar í gegn 90 kg, 93 kg og 96 kg, í jafnhendingu byrjaði hún á 114 kg, fór svo í 117 kg sem báðar voru gildar en klikkaði í þriðju tilraun á 119 kg. Guðný keppti létt í -77 kg flokknum, aðeins 72,37 kg og bætti sig um 5 kg frá því á HM 2024 og er þetta besti árangur hennar á stórmóti hingað til.
Guðný Björk Stefánsdóttir með 96 kg í snörunGuðný Björk Stefánsdóttir með 119 kg í botnstöðu í jafnhendinguGuðný Björk Stefánsdóttir gerir sig tilbúna að lyfta 96 kg í snörun
Eygló Fanndal Sturludóttir þurfti eins og áður hefur komið fram að draga sig úr keppni í flokknum vegna meiðsla sem hún hefur verið að glíma við en það er líklegt að hún hefði barist um verðlaun í flokknum. Olivia Lynn Reeves sem Eygló hefur ótal sinnum keppt á móti í -71 kg flokknum og núverandi Ólympíumeistari keppti í -77 kg flokknum í Noregi og vann með yfirburðum en hún setti ný heimsmet í öllum lyftum og lyfti þyngst 123 kg í snörun og 155 kg í jafnhendingu. Hin egypskaSara Ahmed varð önnur með 112 kg í snörun og 140 kg í jafnhendingu og Mari Sanachez frá Kólumbíu (silfurverðlaunahafinn í París í -71 kg flokk) varð þriðja með 112 kg í snörun og 136 kg í jafnhendingu. Mattie Rogers frá Bandaríkjunum varð fjórða en hún fór illa með snörunina þar sem hún lyfti aðeins upphafsþyngd 107kg og 140 kg í jafnhendingu (brons í jafnhendingu) dugði ekki til að ná í verðlaun í heildarkeppninni. Finninn Janette Ylisoini sem einnig hefur keppt samhliða Eygló í -71 kg flokk mætti í nýja flokkinn heil 75,27 kg og náði stórgóðum árangri þegar hún snaraði 111 kg og jafnhenti 134 kg samanlagt 245 kg og hún endaði í 6. sæti. Allt voru það ný Norðurlandamet í -77 kg flokknum og þetta er 1 kg meira en Eygló lyfti í -71 kg flokknum þegar hún varð Evrópumeistari í apríl síðastliðnum.
Eygló Fanndal Sturludóttir gat ekki keppt í -77 kg flokknum á HM í Noregi en hún er með hópnum úti og aðstoðaði æfingafélgann sinn Guðnýu í keppninni
Norðurlandamót fullorðinna fer fram í Garðabæ 15. – 16. nóvember og vonandi verður Janette meðal keppenda þar en hún er einungis 19 ára og með yngstu keppendum í flokknum og því til alls líkleg á næstu árum, til gamans má geta að Mari Sanchez frá Kólumbíu var elst þeirra 30 keppenda í flokknum en hún er 34 ára.
Bergur Sverrisson varð í 19. sæti á HM í Noregi í -88 kg flokki karla, þetta er fyrsta heimsmeistaramót Bergs en hann varð í 13. sæti á Evrópumeistaramótinu fyrr á árinu. Bergur hóf keppni í C-hóp á 130 kg í snörun, lyfti svo 135 kg en klikkaði á 140 kg í síðustu tilraun sem einnig var tilraun til Íslandsmets. Í jafnhendingu fékk Bergur tvívegis ógilda lyftu, opnunarlyftan 155 kg og önnur tilraun hans við 157 kg en hann sýndi góðan baráttuanda með því að lyfta 158 kg gildri í þriðju og síðustu tilraun. Samanlagður árangur því 293 kg og 19. sæti eins og áður segir.
Bergur Sverrisson situr undir 135 kg í snörunBergur Sverrisson fagnar vel 135 kg í snörunBergur Sverrisson með 157 kg í jafnhendinguBergur Sverrisson með 158 kg í jafnhendingu
Af 31 keppanda í flokknum féllu 9 keppendur úr leik sem er óvenju hátt hlutfall. Kólumbíumaðurinn Jason Lopez sigraði flokkinn nokkuð örugglega með 387 kg samanlagt, í öðru sæti var Norður-Kóreubúinn Kwang Ryol Ro með 377 kg og Makedóníubúinn Marin Robu þriðji með 369 kg, 10 kg minna en hann lyfti á HM í fyrra þar sem hann var einnig þriðji í -89 kg flokki.
Aðeins tveir aðir Norðurlandabúar kepptu í flokknum, Finninn Eetu Hautaniemi varð í 18. sæti með 307 kg í samanlögðu en Norðmaðurinn Sigurd Korsvoll féll úr keppni í snörun þegar hann reyndi við 123 kg þrisvar sinnum. Nýir þyngdarflokkar tóku gilidi 1. júní 2025 og Íslandsmetsstandardinn í -88 kg flokki var sett þá 138 kg í snörun, 168 kg í jafnhendingu og 307 kg í samanlögðum árangri.
Guðný Björk Stefánsdóttir keppir á morgun í -77 kg B flokki, en Evrópumeistarinn Eygló Fanndal Sturludóttir þurfti því miður að hætta við að keppa vegna þess að hún er ennþá að jafna sig af meiðslum sem hún hefur glímt við síðustu vikur:
Katla Björk Ketilsdóttir keppti fyrst Íslendinga á HM í Förde í Noregi í gær í -63 kg flokki kvenna, Katla opnaði á 84 kg í snörun sem hún lyfti auðveldlega en missti síðan 87 kg og 88 kg í annari og þriðju tilraun. Í jafnhendingunni byrjaði hún á 100 kg sem hún klikkaði á en kom sterk til baka og lyfti 100 kg í annarri tilraun. Þriðja tilraun var við 104 kg, einu kg minna en hún lyfti á Evrópumeistaramótinu í apríl síðastliðnum. Árangur Kötlu dugði í 23. sæti af 33 keppendum.
Norður-Kóreu búinn Ri Suk varð í fyrsta sæti með ný heimsmet í flokknum 111 kg/142 kg, Kanadabúinn Maude Charron (silfurverðlaunahafi frá París 2024 í -59 kg flokk) var með silfur 103 kg/133 kg og Yenny Sinisterra Torres frá Kólumbíu þriðja með 103 kg/128 kg. Inka Tiainen frá Finnlandi var efst Norðurlandabúa í 16. sæti en hún snaraði 85 kg og 114 kg í jafnhendingu.
Heimsmeistaramótið í ólympískum lyftingum hefst á morgun 2. október í bænum Förde í Noregi og stendur til 11. október. Það er nokkuð magnað að heimsmeistaramót sé haldið í svo litlu bæjarfélagi en aðeins eru um 10 þúsund íbúar í Förde. Undirritaður fór á Evrópumeistaramótið sem haldið 2016 við góðan orðstír. Ástæða þess að mótið er haldið þarna er að Stian Grimseth, tvöfaldur ólympíufari og forseti Norska lyftingasambandsins er frá svæðinu og hefur það verið draumur hans að halda mótið í Noregi alla tíð en mótið hefur aldrei verið haldið þar Svíar héldu heimsmeistaramótið ’53,’58 og ’63. Finnar héldu mótið einu sinni 1998.
240 konur frá 66 löndum og 237 karlar frá 72 löndum eru skráðir til leiks, alls eru 87 lönd með fulltrúa. Þetta er fyrsta heimsmeistaramótið þar sem keppt er í nýjum þyngdarflokkum sem tóku gildi 1. júní 2025.
Ísland á fjórar konur á keppendalistanum og einn karl.
Katla Björk Ketilsdóttir (f. 2000) mætir fyrst til leiks í -63 kg flokki, hún keppir í B-grúppu þann 5. október klukkan 14:30 að staðartíma. Katla hefur verið búsett í Noregi síðustu ár og nálgast sitt besta form en hún lyfti 193 kg samanlagt á Evrópumeistaramótinu fyrr á árinu.
Bergur Sverrisson (f. 1994) keppir næstur íslensku keppendanna í -88 kg flokki, Bergur er stigahæstur allra íslenskra karla á árinu eftir árangur sinn á Evrópumeistaramótinu þar sem hann lyfti 302 kg samanlagt. Bergur keppir 7. október klukkan 10:00 að staðartíma.
Guðný Björk Stefánsdóttir (f. 2001) keppir í -77 kg flokk, en yfirleitt hefur hún keppt í -71 kg flokk (sem núna er ekki lengur til og aðeins -69 kg flokkur). Guðný hefur lyft mest á árinu 218 kg í keppni og verður að teljast með sterkari keppendum í C-grúppunni sem hún er skráð í og keppir hópurinn 8. október klukkan 11:30 að staðartíma. CWF þýðir Commonwealth Weightlifting Federation og þeir keppendur sem eru merktir CWF eru aðeins í úrtökumóti fyrir Samveldisleikana en ekki partur af heimsmeistaramótinu.
Eygló Fanndal Sturludóttir (f. 2001) keppir í A-hóp einnig í -77 kg flokki, það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að Eygló er ríkjandi Evrópumeistari í flokknum þar sem hún lyfti 244 kg samanlagt í -71 kg flokk (sem eins og áður segir hefur verið færður niður í -69 kg). Í A-hópnum eru mættar til leiks ríkjandi heims og ólympíumeistari í -71 kg flokk sem og heimsmetshafinn Olivia Reeves (f. 2003) frá Bandaríkjunum, einnig er landi hennar Martha Ann Rogers (Mattie Rogers) (f. 1995) mætt til leiks en hún hefur 4x unnið silfur á heimsmeistaramót og er ríkjandi Pan-Am meistari frá 12. júlí þar sem hún lyfti 249 kg samanlagt. Silfurverðlaunahafinn frá því í París í -71 kg flokk og öldungurinn í hópnum Mari Sánchez (f. 1991) frá Kólumbíu mætir til leiks, hún lyfti 257 kg í París en svo var hún einnig með silfur á Pan-Am meistaramótinu í Júlí með 248 kg, einu kg minna en Mattie Rogers. Sara Ahmed (f. 1998) frá Egyptalandi verður að teljast með sterkari keppendum í flokknum og hún er með hæsta entry totalið. Hún vann silfur á ólympíuleikunum í París í -81 kg flokki þar sem hún lyfti 268 kg en gullverðlaunin í þeim flokki fóru til hinnar Norsku Solfrid Koanda (f. 1998) (kvenn íþróttamaður ársins í Noregi 2024) sem mun keppa í -86 kg flokknum. Kínverjar og Norður Kórea tefla ekki fram keppendum í flokknum þar sem ekki er tryggt að þeir geti unnið til verðlauna, en Eygló var einmitt hársbreidd frá því að vinna til bronsverðlauna á síðasta heimsmeistaramóti þar sem hún endaði í 4. sæti, þá í -71 kg flokk þegar norður kóreski keppandinn var nálægt því að falla úr keppni eftir að hún klikkaði 2x á opnunarþyngd í jafnhendingu. Það verður því hörð og skemmtileg keppni í -77 kg kvenna flokkunum í Förde og allt opið sérstaklega í keppni um bronsverðlaun. Keppni í flokknum fer fram 8. október klukkan 19:30 að staðartíma.
Erla Ágústdóttir (f. 2001) er síðust íslendinganna en hún keppir í +86 kg flokki (B-grúppu). Erla er búsett í Danmörku þar sem hún stundar nám við DTU og kemur inn í mótið í góðu formi en hún keppti síðast í Danmörku í maí þar sem hún lyfti 220 kg samanlagt. Erla keppir 11. október klukkan 11:00 að staðartíma.
Haustmót LSÍ 2025 fór fram sunnudaginn 21. september í húsakynnum WorldFit í World Class á Tjarnarvöllum. Alls mættu 22 keppendur til leiks, þar af 18 konur og fjórir karlar. Mótið var stigamót þ.e. úrslit eftir Sinclair stigakerfinu. Verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin í karla og kvennaflokki ásamt því að veita verðlaunabikar fyrir stigahæsta keppandann í hvorum flokki fyrir sig.
Mótshaldari var Lyftingafélag Mosfellsbæjar með stuðningi frá LSÍ.
Keppendalisti* haustsmóts LSÍ 2025, haldið í húsakynnum WorldFit á Tjarnarvöllum, sunnudaginn 21. september hefur verið birtur með fyrirvara um breytingar.
Lyftingasamband Íslands hefur ráðið Arnór Ásgeirsson sem nýjan framkvæmdastjóra sambandsins.
Arnór, sem er með M.sc. í íþróttastjórnun, starfaði síðast sem íþrótta- og markaðsstjóri HK, auk þess sem hann var staðgengill framkvæmdastjóra. Hann er uppalinn í Fjölni og hefur starfað á fjölmörgum sviðum íþróttahreyfingarinnar, bæði hér á landi og erlendis. Hann hefur víðtæka reynslu af verkefnastjórnun af ýmsum stærðargráðum, auk þess sem hann þekkir vel til rekstrar íþróttahreyfingarinnar og samvinnu við hagaðila innan hennar.
Arnór hefur einnig starfað sem verkefnastjóri afrekssviðs í Borgarholtsskóla í tvö ár og á að baki langan feril sem handboltaþjálfari. Þessi reynsla hefur veitt honum dýrmæta innsýn í mikilvægi samskipta, fagmennsku og skipulags í íþróttastarfi.
Arnór tekur formlega við starfi framkvæmdastjóra Lyftingasambandsins af Maríu Rún þann 1. september nk.
Við þökkum Maríu Rún kærlega fyrir mjög vel unnin störf og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi sem og Arnóri í starfi framkvæmdastjóra Lyftingasambandsins.