Norðurlandamót fullorðinna 2025 – Heildarúrslit

Heildarúrslit má nálgast hér: https://results.lsi.is/meet/nordic-championship-ntf-stadfest-dagsetning-2025 og https://nordicweightlifting.com/

Upptaka af mótinu er aðgengileg á nýstofnaðri YouTube-rás sambandsins: https://www.youtube.com/@IcelandicWeightlifting

Stigahæstu keppendur mótsins voru hin finnska Janette Ylisoini með 237 kg samanlagt í -77 kg flokki kvenna og hinn sænski Hugo Ottosson með 355 kg samanlagt í -110 kg flokki karla.

Árangur Íslendinga á mótinu (frétt verður uppfærð með myndum þegar þær berast):

Ísland náði sér í þrjú silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á mótinu.

Katla Björk Ketilsdóttir varð önnur í -63 kg flokki kvenna þegar hún snaraði 86 kg og jafnhenti 103 kg, samtals 189 kg. Þetta var fjórða Norðurlandamót Kötlu og hún var því reynsluboltinn í landsliðinu, þetta er einnig besti árangur hennar á Norðurlandamóti.

f.v. Katla Björk Ketilsdóttir, Inka Tiainen (Finnlandi) og Susanne Johansson frá Svíþjóð. Mynd: BerndsenPhoto

Guðný Björk Stefánsdóttir varð önnur í -77 kg flokki þegar hún snaraði 98 kg og jafnhenti 118 kg, samtals 216 kg. Snörunin var nýtt persónulegt met hjá henni og bæting um 1 kg. Þessi árangur var líka annar stigahæsti árangur kvenna á mótinu en Janette Ylisoini frá Finnlandi varð stigahæst og einnig sigraði hún -77 kg flokkinn með 237 kg samanlagt.

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud sem keppti fyrir Íslandshönd á Ólympíuleikunum 2008, 2012 og 2016 í spjótkasti, keppti í fyrsta sinn fyrir Ísland á móti í ólympískum lyftingum og náði í silfur í -86 kg flokki kvenna. Ásdís sem varð fertug fyrir rétt tæpum þremur vikum átti stórgott mót og fór með allar sínar lyftur í gegn, seríuna 74 kg, 77 kg og 80 kg í snörun, í jafnhendingu lyfti hún 99 kg, 102kg og loks 105 kg. Þetta voru einnig met í mastersflokkum 35-39 ára og 40-44 ára. Allt er fertugum fært!

Ásdís Hjálmsdóttir gerir sig klára fyrir snörun. Mynd: BerndsenPhoto

Selma Gísladóttir vann brons í -86 kg flokknum en hún átti einnig gott mót og fór með 5/6 lyftum í gegn. Hún lyfti mest 82 kg í snörun og 102 kg í jafnhendingu, samtals 184 kg eða einu kílói minna en Ásdís sem fór fram fyrir hana með því að lyfta loka lyftunni. Bæði Ásdís og Selma eru búsettar í Svíþjóð og þetta var líka fyrsta mót Selmu þar sem hún keppir fyrir landsliðið.

f.h. Ásdís Hjálmsdóttir, Anna Sofie Jensen og Selma Gísladóttir

Tindur Elíasen eini íslenski karlkeppandi mótsins varð í 5. sæti í -88 kg flokk. Hann setti nýtt Íslandsmet í flokki 20 ára og yngri og 23 ára og yngri í jafnhendingu og samanlögðum árangri þegar hann lyfti 119 kg í snörun, 142 kg í jafnhendingu og 261 kg samtals. Áður hafði hann lyft 142 kg á innanfélagsmóti í ágúst en þau gilda ekki til meta.

Erla Ágústsdóttir féll úr keppni í snörun með 98 kg í fyrsta sinn á ferlinum, hún kom hinsvegar sterk til baka í jafnhendingunni og bætti sinn besta árangur um 3 kg og lyfti 125 kg.

Erla Ágústsdóttir í snörun

Thelma Mist Oddsdóttir lyfti mest 72 kg í snörun og 89 kg í jafnhendingu, samtals 161 kg og varð í 4. sæti í -58 kg flokki.

Freyja Björt Svavarsdóttir lyfti 60 kg í snörun og 80 kg í jafnhendingu, samtals 140 kg og varð í 5. sæti í -58 kg flokki.

Snædís Líf Pálmarsdóttir sýndi af sér keppnishörku þegar hún lyfti 71 kg í snörun í þriðju tilraun og jafnhenti síðan 95 kg, samtals 166 kg og varð í 7. sæti í -63 kg flokki kvenna.

Sólveig Ásta Gautadóttir tók cat.2 alþjóðleg dómararéttindi, Lárus Páll Pálsson (cat.1) starfaði einnig á mótinu.

f.v. Willum Þór Willumson forseti ÍSÍ, Guðmundur Sigurðsson (Heiðursfélagi LSÍ nr.1) og Arnór Ásgeirsson framkvæmdastjóri LSÍ

Liðakeppni kvenna (öll lið áttu keppanda sem féll úr leik):

Danmörk 34 stig

Finnland 32 stig

Svíþjóð 28 stig

Ísland 24 stig

Liðakeppni karla

Danmörk 28 stig

Svíþjóð 25 stig

Noregur 23 stig

Finnland 22 stig

Færeyjar 5 stig

Ísland 2 stig

Guðný Björk í 21. sæti á HM í -77 kg flokki

Guðný Björk Stefánsdóttir keppti í dag í -77 kg flokki kvenna á HM í Noregi, Guðný keppti í C-hóp þar sem hún varð þriðja en endaði í 21. sæti í heildarkeppninni. Guðný fór með allar þrjár snaranirnar sínar í gegn 90 kg, 93 kg og 96 kg, í jafnhendingu byrjaði hún á 114 kg, fór svo í 117 kg sem báðar voru gildar en klikkaði í þriðju tilraun á 119 kg. Guðný keppti létt í -77 kg flokknum, aðeins 72,37 kg og bætti sig um 5 kg frá því á HM 2024 og er þetta besti árangur hennar á stórmóti hingað til.

Guðný Björk Stefánsdóttir með 96 kg í snörun
Guðný Björk Stefánsdóttir með 119 kg í botnstöðu í jafnhendingu
Guðný Björk Stefánsdóttir gerir sig tilbúna að lyfta 96 kg í snörun

Eygló Fanndal Sturludóttir þurfti eins og áður hefur komið fram að draga sig úr keppni í flokknum vegna meiðsla sem hún hefur verið að glíma við en það er líklegt að hún hefði barist um verðlaun í flokknum. Olivia Lynn Reeves sem Eygló hefur ótal sinnum keppt á móti í -71 kg flokknum og núverandi Ólympíumeistari keppti í -77 kg flokknum í Noregi og vann með yfirburðum en hún setti ný heimsmet í öllum lyftum og lyfti þyngst 123 kg í snörun og 155 kg í jafnhendingu. Hin egypska Sara Ahmed varð önnur með 112 kg í snörun og 140 kg í jafnhendingu og Mari Sanachez frá Kólumbíu (silfurverðlaunahafinn í París í -71 kg flokk) varð þriðja með 112 kg í snörun og 136 kg í jafnhendingu. Mattie Rogers frá Bandaríkjunum varð fjórða en hún fór illa með snörunina þar sem hún lyfti aðeins upphafsþyngd 107kg og 140 kg í jafnhendingu (brons í jafnhendingu) dugði ekki til að ná í verðlaun í heildarkeppninni. Finninn Janette Ylisoini sem einnig hefur keppt samhliða Eygló í -71 kg flokk mætti í nýja flokkinn heil 75,27 kg og náði stórgóðum árangri þegar hún snaraði 111 kg og jafnhenti 134 kg samanlagt 245 kg og hún endaði í 6. sæti. Allt voru það ný Norðurlandamet í -77 kg flokknum og þetta er 1 kg meira en Eygló lyfti í -71 kg flokknum þegar hún varð Evrópumeistari í apríl síðastliðnum.

Eygló Fanndal Sturludóttir gat ekki keppt í -77 kg flokknum á HM í Noregi en hún er með hópnum úti og aðstoðaði æfingafélgann sinn Guðnýu í keppninni

Norðurlandamót fullorðinna fer fram í Garðabæ 15. – 16. nóvember og vonandi verður Janette meðal keppenda þar en hún er einungis 19 ára og með yngstu keppendum í flokknum og því til alls líkleg á næstu árum, til gamans má geta að Mari Sanchez frá Kólumbíu var elst þeirra 30 keppenda í flokknum en hún er 34 ára.

Bergur Sverrisson í 19. sæti á HM í Noregi

Bergur Sverrisson varð í 19. sæti á HM í Noregi í -88 kg flokki karla, þetta er fyrsta heimsmeistaramót Bergs en hann varð í 13. sæti á Evrópumeistaramótinu fyrr á árinu. Bergur hóf keppni í C-hóp á 130 kg í snörun, lyfti svo 135 kg en klikkaði á 140 kg í síðustu tilraun sem einnig var tilraun til Íslandsmets. Í jafnhendingu fékk Bergur tvívegis ógilda lyftu, opnunarlyftan 155 kg og önnur tilraun hans við 157 kg en hann sýndi góðan baráttuanda með því að lyfta 158 kg gildri í þriðju og síðustu tilraun. Samanlagður árangur því 293 kg og 19. sæti eins og áður segir.

Bergur Sverrisson situr undir 135 kg í snörun
Bergur Sverrisson fagnar vel 135 kg í snörun
Bergur Sverrisson með 157 kg í jafnhendingu
Bergur Sverrisson með 158 kg í jafnhendingu

Af 31 keppanda í flokknum féllu 9 keppendur úr leik sem er óvenju hátt hlutfall. Kólumbíumaðurinn Jason Lopez sigraði flokkinn nokkuð örugglega með 387 kg samanlagt, í öðru sæti var Norður-Kóreubúinn Kwang Ryol Ro með 377 kg og Makedóníubúinn Marin Robu þriðji með 369 kg, 10 kg minna en hann lyfti á HM í fyrra þar sem hann var einnig þriðji í -89 kg flokki.

Aðeins tveir aðir Norðurlandabúar kepptu í flokknum, Finninn Eetu Hautaniemi varð í 18. sæti með 307 kg í samanlögðu en Norðmaðurinn Sigurd Korsvoll féll úr keppni í snörun þegar hann reyndi við 123 kg þrisvar sinnum. Nýir þyngdarflokkar tóku gilidi 1. júní 2025 og Íslandsmetsstandardinn í -88 kg flokki var sett þá 138 kg í snörun, 168 kg í jafnhendingu og 307 kg í samanlögðum árangri.

Guðný Björk Stefánsdóttir keppir á morgun í -77 kg B flokki, en Evrópumeistarinn Eygló Fanndal Sturludóttir þurfti því miður að hætta við að keppa vegna þess að hún er ennþá að jafna sig af meiðslum sem hún hefur glímt við síðustu vikur:

Heimsmeistaramótið 2025 í Forde, Noregi

Heimsmeistaramótið í ólympískum lyftingum hefst á morgun 2. október í bænum Förde í Noregi og stendur til 11. október. Það er nokkuð magnað að heimsmeistaramót sé haldið í svo litlu bæjarfélagi en aðeins eru um 10 þúsund íbúar í Förde. Undirritaður fór á Evrópumeistaramótið sem haldið 2016 við góðan orðstír. Ástæða þess að mótið er haldið þarna er að Stian Grimseth, tvöfaldur ólympíufari og forseti Norska lyftingasambandsins er frá svæðinu og hefur það verið draumur hans að halda mótið í Noregi alla tíð en mótið hefur aldrei verið haldið þar Svíar héldu heimsmeistaramótið ’53,’58 og ’63. Finnar héldu mótið einu sinni 1998.

240 konur frá 66 löndum og 237 karlar frá 72 löndum eru skráðir til leiks, alls eru 87 lönd með fulltrúa. Þetta er fyrsta heimsmeistaramótið þar sem keppt er í nýjum þyngdarflokkum sem tóku gildi 1. júní 2025.

Ísland á fjórar konur á keppendalistanum og einn karl.

Heimasíða mótsins: https://www.forde2025.no/en/

Beint streymi frá mótinu: https://www.forde2025.no/live-stream/

Startbók (allar upplýsingar um keppendur og dagskrá): https://iwf.sport/wp-content/plugins/download-monitor/download.php?id=2808

Við hvetjum alla til að fylgjast með instagram reikningi sambandsins: https://www.instagram.com/icelandic_weightlifting/?hl=en

Weightliftinghouse mun verða með umfjöllun: https://eustore.weightliftinghouse.com/blogs/news/world-weightlifting-championships-results

Katla Björk Ketilsdóttir (f. 2000) mætir fyrst til leiks í -63 kg flokki, hún keppir í B-grúppu þann 5. október klukkan 14:30 að staðartíma. Katla hefur verið búsett í Noregi síðustu ár og nálgast sitt besta form en hún lyfti 193 kg samanlagt á Evrópumeistaramótinu fyrr á árinu.

Bergur Sverrisson (f. 1994) keppir næstur íslensku keppendanna í -88 kg flokki, Bergur er stigahæstur allra íslenskra karla á árinu eftir árangur sinn á Evrópumeistaramótinu þar sem hann lyfti 302 kg samanlagt. Bergur keppir 7. október klukkan 10:00 að staðartíma.

Guðný Björk Stefánsdóttir (f. 2001) keppir í -77 kg flokk, en yfirleitt hefur hún keppt í -71 kg flokk (sem núna er ekki lengur til og aðeins -69 kg flokkur). Guðný hefur lyft mest á árinu 218 kg í keppni og verður að teljast með sterkari keppendum í C-grúppunni sem hún er skráð í og keppir hópurinn 8. október klukkan 11:30 að staðartíma. CWF þýðir Commonwealth Weightlifting Federation og þeir keppendur sem eru merktir CWF eru aðeins í úrtökumóti fyrir Samveldisleikana en ekki partur af heimsmeistaramótinu.

Eygló Fanndal Sturludóttir (f. 2001) keppir í A-hóp einnig í -77 kg flokki, það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að Eygló er ríkjandi Evrópumeistari í flokknum þar sem hún lyfti 244 kg samanlagt í -71 kg flokk (sem eins og áður segir hefur verið færður niður í -69 kg). Í A-hópnum eru mættar til leiks ríkjandi heims og ólympíumeistari í -71 kg flokk sem og heimsmetshafinn Olivia Reeves (f. 2003) frá Bandaríkjunum, einnig er landi hennar Martha Ann Rogers (Mattie Rogers) (f. 1995) mætt til leiks en hún hefur 4x unnið silfur á heimsmeistaramót og er ríkjandi Pan-Am meistari frá 12. júlí þar sem hún lyfti 249 kg samanlagt. Silfurverðlaunahafinn frá því í París í -71 kg flokk og öldungurinn í hópnum Mari Sánchez (f. 1991) frá Kólumbíu mætir til leiks, hún lyfti 257 kg í París en svo var hún einnig með silfur á Pan-Am meistaramótinu í Júlí með 248 kg, einu kg minna en Mattie Rogers. Sara Ahmed (f. 1998) frá Egyptalandi verður að teljast með sterkari keppendum í flokknum og hún er með hæsta entry totalið. Hún vann silfur á ólympíuleikunum í París í -81 kg flokki þar sem hún lyfti 268 kg en gullverðlaunin í þeim flokki fóru til hinnar Norsku Solfrid Koanda (f. 1998) (kvenn íþróttamaður ársins í Noregi 2024) sem mun keppa í -86 kg flokknum. Kínverjar og Norður Kórea tefla ekki fram keppendum í flokknum þar sem ekki er tryggt að þeir geti unnið til verðlauna, en Eygló var einmitt hársbreidd frá því að vinna til bronsverðlauna á síðasta heimsmeistaramóti þar sem hún endaði í 4. sæti, þá í -71 kg flokk þegar norður kóreski keppandinn var nálægt því að falla úr keppni eftir að hún klikkaði 2x á opnunarþyngd í jafnhendingu. Það verður því hörð og skemmtileg keppni í -77 kg kvenna flokkunum í Förde og allt opið sérstaklega í keppni um bronsverðlaun. Keppni í flokknum fer fram 8. október klukkan 19:30 að staðartíma.

Erla Ágústdóttir (f. 2001) er síðust íslendinganna en hún keppir í +86 kg flokki (B-grúppu). Erla er búsett í Danmörku þar sem hún stundar nám við DTU og kemur inn í mótið í góðu formi en hún keppti síðast í Danmörku í maí þar sem hún lyfti 220 kg samanlagt. Erla keppir 11. október klukkan 11:00 að staðartíma.

Jólamót LSÍ 2024

Friðný Jónsdóttir úr lyftingadeild Stjörnunnar og Bergur Sverrisson frá lyftingadeild KA voru í algjörum sérflokki á Jólamóti LSÍ sem fram fór í Crossfit Reykjavík síðusta Sunnudag.

Friðný keppti létt í +87kg flokki kvenna (88.20kg) og stórbætti sinn besta árangur, 8kg í snörun, 12kg í jafnhendingu og 19kg í samanlögðum árangri. Hún lyfti 100kg í snörun og 122kg í jafnhendingu og bætti með Erlu Ágústdóttur í jafnhendingu um 3kg en Erla hafði lyft 119kg fyrr sama dag á Heimsmeistaramóti IWF. Metið í samanlögðum árangri bætti hún um 1kg úr 221kg sem Erla hafði lyft í 222kg.

Friðný í lokastöðu með 122kg -mynd Jón Karl Jónsson

Með þessum árangri hlýtur Friðný einnig Elite Pin norðurlandasambandsins líkt og Erla, en lyfta þarf yfir 218kg samanlagt í +87kg kvenna flokk til að hljóta hann.

Bergur Sverrisson úr lyftingadeild KA gerði einnig gott mót þegar hann fór með allar sínar lyftur í gegn. Seríuna 130kg-136kg-140kg í snörun og svo 150kg-157kg-161kg í jafnhendingu. Bergur vigtaðist 88.8kg, þyngsta snörunin var bæting um 2kg á meti Brynjars Loga Halldórssonar frá 2023 í -89kg flokk karla. Einnig var samanlagður árangur Bergs 1kg bæting á fyrra meti Brynjars.

Önnur met sem voru sett voru met í flokki 15 ára og yngri kvenna af Birnu Sól Björnsdóttur (LFR) í -76kg flokk best 33kg í snörun, 50kg í jafnhendingu og 83kg í samanlögðum árangri. Tristann Bergmann Einarsson (LFR) setti einni met í flokki 15 ára og yngri karla -55kg, best 32kg í snörun, 54kg í jafnhendingu og 86kg í samanlögðum árangri.

Anna Guðrún Halldórsdóttir (Hamar) setti fjölmörg masters met í mörgum aldursflokkum M35-M55 þegar hún snaraði 56kg og jafnhenti 77kg í flokki +87kg. Reglan við masters met hjá LSÍ er sú að einstaklingur fær skráð met í sinn flokk M55 hjá Önnu Guðrún en einnig í „yngri“ flokkum ef metið er lægra þar, hún fær því met skráð í flokk M35, M40, M45 og M50.

Dísa Edwards (Massi) setti ný met í masters flokki -64kg M35 þegar hún snaraði best 61kg í snörun, 73kg í jafnhendingu og 134kg samtals.

Loks setti Steinunn Sveinsdóttir (LFK) masters met í -87kg flokki M60 þegar hún snaraði best 27kg, jafnhenti 34kg og því samanlagt 61kg.

Mótið er Sinclair mót og þrír stigahæstu keppendur af hvoru kyni eru verðlaunaðir

Top 3 KVK:

  1. Friðný Jónsdóttir (Stjarnan) (100+122=222kg) – 246.7 Stig
  2. Snædís Líf Pámarsdóttir (LFR) (72+94=166kg) – 219.3 Stig
  3. Indíana Lind Gylfadóttir (LFK) (82+101=183kg) – 212.3 Stig
fv. Snædís Líf, Friðný, Indíana-mynd Jón Karl Jónsson

Top 3 KK:

fv. Axel Guðni, Bergur, Árni Rúnar-mynd Jón Karl Jónsson
  1. Bergur Sverrisson (KA) (140+161=301kg) – 364.2 Stig
  2. Axel Guðni Sigurðsson (ÍA) (127+155=282kg) – 341.9 Stig
  3. Árni Rúnar Baldursson (ÍA) (107+130=237kg) – 312.5 Stig

Eygló Fanndal í 4.sæti á Heimsmeistaramótinu í Bahrain

Eygló Fanndal Sturludóttir varð í fjórða sæti á Heimsmeistaramótinu í lyftingum sem fram fer í höfuðborg Bahrain, Manama. Hún lyfti 107 kg í snörun og 132 kg í jafnhendingu, samanlagt 239 kg, sem var bæting á Íslands- og Norðurlandametinu í -71 kg flokki kvenna um 2 kg.

Sjá umfjöllun RÚV í íþróttafréttum 11.12.2024: https://www.ruv.is/sjonvarp/dagskra/ruv/2024-12-11

Umfjöllun IWF um daginn, aðeins fjallað um Eygló þar

Eygló gerir sig tilbúna að lyfta 104kg í Bahrain. Mynd:DBM/Deepbluemedia

Eygló átti frábæran dag. Hún keppti í fyrsta sinn í A-hóp, en 28 keppendur í -71 kg flokknum eru skiptir upp í þrjá hópa eftir getu. Í hóp með Eygló voru því bestu lyftingakonur heims, m.a. ríkjandi Ólympíumeistari Olivia Reeves frá Bandaríkjunum, silfurhafinn frá París, hin kólumbíska Mari Sánchez, Chen Wen-Huei frá Taipei sem varð í 6. sæti í París og vann til bronsverðlauna í Tókýó. Einnig sterkustu lyftingakonur Kína og Norður-Kóreu í flokknum, en Kínverjar tefldu ekki fram keppanda í flokknum í París. Eygló var eini keppandinn frá Evrópu í A-hóp.

Eygló byrjaði snörunina á 101 kg, því næst fór hún í 104 kg og loks í 107 kg, sem var bæting á hennar eigin Íslands- og Norðurlandameti um 1 kg. Hún var í fimmta sæti eftir snörunina með 1 kg meira en Mari Sánchez og á eftir annarri upprennandi kólumbískri konu, Julieth Rodriguez, sem byrjaði á 110 kg í snörun, sem var bæting um heil 6 kg samkvæmt kynnum mótsins. Kína, Bandaríkin og Norður-Kórea voru í efstu þremur sætunum.

Eygló situr undir 107kg

Í jafnhendingunni byrjaði Eygló á 129 kg, því næst fór hún í 132 kg. Með þeirri lyftu náði hún 1 kg forskoti á Julieth Rodriguez og 3 kg forskoti á Mari Sánchez. Þær tvær klikkuðu svo báðar á lyftu 2 og 3. Eygló fór í þriðju tilraun í 134 kg, sem hefði verið bæting á Íslandsmeti um 1 kg, en líka á Norðurlandametinu í jafnhendingu, sem hin sænska Patricia Strenius á. Eygló „cleanaði“ þyngdina en náði ekki að klára jarkið.

Eygló stóð upp með 134kg en náði ekki að klára jarkið

Hin kínverska Qiuxia Yang hóf jafnhendinguna á 134 kg og tók forystu í keppninni. Olivia Reeves hóf jafnhendinguna á 143 kg og tók nokkuð afgerandi forystu. Eygló var því í þriðja sæti í keppninni þegar Norður-Kóreski keppandinn átti eftir að hefja keppni, en hún vildi byrja á 145 kg. Fyrsta tilraun hjá henni gekk ekki og hún hækkaði í 146 kg. Það sömuleiðis var langt frá því að vera góð tilraun og um stund leit það út fyrir að Eygló myndi nokkuð óvænt vinna til bronsverðlauna og sú norðurkóreska detta úr keppni. En svo, nokkuð óvænt, náði hún að negla loka lyftuna, sem einnig tryggði henni silfur.

Fjórða sætið var því niðurstaðan, en besti árangur Eyglóar á Heimsmeistaramóti var frá 2023 þegar hún endaði í 17. sæti.

Friðný Fjóla Jónsdóttir í 15.sæti í -87kg flokki, Erla með þrjú íslandsmet!

Friðný Fjóla Jónsdóttir og Erla Ágústdóttir kepptu í dag síðastar íslensku keppendanna á Evrópumeistaramótinu í Ólympískum lyftingum sem fram fer í Sofia í Búlgaríu. Báðar kepptu þær í B-hóp, Friðný í flokki -87kg og Erla +87kg en flokkarnir voru keyrðir saman. Friðný Fjóla keppti á sínu fyrsta stórmóti, hún opnaði fyrst örugglega í 88kg, fór síðan í 92kg sem fóru nokkuð auðveldlega upp en missti aðeins lásinn á hægri hendi og fékk ógilt. Þriðja tilraun var við 93kg en hún fór ekki upp. Í jafnhendingu opnaði Friðný á 105kg sem hún fékk ógilt fyrir pressu sem kviðdómur greip inn í, þar næst fór hún í 106kg sem flaug upp og að lokum í 112kg sem hefði verið bæting á hennar besta árangri um 1kg, hún clean-aði þeirri þyngd en klikkaði í jarkinu. Friðný endaði í 15.sæti í -87kg flokk kvenna. Hin norska Solfrid Koanda bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í flokknum þegar hún snaraði 120kg og jafnhenti 160kg og bætti sinn besta árangur um 8kg og setti norðurlandamet í öllum lyftum (snörun, jafnhendingu og samanlögðum árangri). Hún færðist einnig upp úr 8.sæti í það 6. á OQR og er orðinn nokkuð örugg með sæti í París en keppt er í +81kg flokki kvenna þar.

Friðný með 88kg í snörun á Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu. Ljósmynd: Isaac Morillas Sanchez (www.worldweightliftingmedia.com)

Erla opnaði á 93kg, fór svo í 97kg sem var nýtt íslandsmet í +87kg flokki að lokum fór hún í 100kg í þriðju tilraun en hún þurfti að lyfta á eftir sjálfri sér í loka lyftunni. Hún flaug upp og 5kg bæting í snörun og tvö íslandsmet. Einnig er hún aðeins annar íslendingurinn í kvenna flokki til að snara 100kg (hinn er Eygló Fanndal Sturludóttir). Í jafnhendingunni opnaði hún á 110kg, fór svo í 115kg sem hún rétt missti í loka stöðu. Hún lét það ekki á sig fá og kom til baka í þriðju tilraun og kláraði lyftuna. Nýtt íslandsmet í samanlögðum árangri, 4kg bæting á íslandsmetinu sem hún setti á jólamótinu fyrir rétt um 2 mánuðum síðan. Árangur Erlu dugði henni til 8.sætis í +87kg flokki kvenna.

Erla með 100kg í snörun á Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu. Ljósmynd: Isaac Morillas Sanchez (www.worldweightliftingmedia.com)

Friðný og Erla keppa á morgun (19.Febrúar) klukkan 10:00 að íslenskum

Síðustu tveir keppendurnir okkar þær Friðný Fjóla Jónsdóttir og Erla Ágústdóttir keppa á morgun 19.Febrúar klukkan 10:00 að íslenskum tíma (12:00 að staðartíma í Búlgaríu). Þær keppa á sama tíma en þó ekki í sama þyngdarflokk, B hópar -87kg flokks og +87kg flokks eru keyrðir saman.

Eins og áður hefur komið fram er hægt að horfa á mótið á WEIGHTLIFTINGHOUSE.TV og fylgjast með stöðunni á EASYWL.

Úrslit koma svo í gagnagrunn sambandsins þegar A-hópar hafa lokið keppni.

Þetta er fyrsta stórmót Friðnýar en hún hefur best snarað 92kg og jafnhent 111kg sem hún gerði á Norðurlandamótinu í lyftingum í Október á síðasta ári. Friðný á íslandsmetið í snörun í flokknum en jafnhendingarmetið er 114kg (standard) og 205kg í samanlögðu og verður gaman að sjá hvort hún geri atlögu af því á morgun.

Friðný á norðurlandamótinu í lyftingum 2023 með 88kg á stönginni. Ljósmynd: Isaac Morillas Sanchez (www.worldweightliftingmedia.com)

Erla Ágústdóttir hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og lyfti sínum besta árangri á Jólamótinu síðastliðnum 93kg í snörun og 118kg í jafnhendingu. Hún vann til bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í flokki 23 ára og yngri á síðasta ári og er til alls líkleg. Íslandsmet hennar í snörun er 95kg.

Erla á Evrópumeistaramóti Ungmenna í Rúmeníu þar sem hún vann til verðlauna 2023. Ljósmynd: Isaac Morillas Sanchez (www.worldweightliftingmedia.com)

Á Evrópumeistaramótinu hafa nú þegar lokið keppni:

Þuríður Erla Helgadóttir sem varð í 14.sæti í -59kg flokki

Katla Björk Ketilsdóttir sem varð í 22.sæti í -64kg flokki

Eygló Fanndal Sturludóttir sem varð í 4.sæti í -71kg flokki

Guðný Björk Stefánsdóttir sem varð í 10.sæti í -76kg flokki

Eygló Fanndal setti íslands og norðurlandamet í snörun þegar hún lyfti 105kg. Guðný Björk setti einnig íslandsmet í jafnhendingu þegar hún lyfti 110kg.

Guðný Björk lyftir 110kg í jafnhendingu sem var nýtt Íslandsmet í -76kg flokki

Eygló Fanndal í fjórða sæti á Evrópumeistaramótinu í lyftingum með norðurlandamet í snörun

Eygló Fanndal Sturludóttir var grátlega nærri því að verða fyrst íslendinga til að vinna til verðlauna á stórmóti í ólympískum lyftingum þegar hún endaði í 4.sæti í -71kg flokki kvenna aðeins 1kg á eftir 3.sætinu. Hún átti samt sem áður mjög sterkt mót og náði sínum næst besta árangri á móti 230kg og einnig setti hún norðurlandamet í snörun í -71kg flokki kvenna. Þetta mót mun án efa fara í reynslubankann hjá Eygló. Þetta er besti árangur íslendings á stórmóti í ólympískum lyftingum.

Sjá heildarúrslit hér: https://www.easywl.com/bulgaria/results/F071.pdf

Eygló með 105kg, nýtt norðurlandamet í snörun. Ljósmynd: Isaac Morillas Sanchez (www.worldweightliftingmedia.com)

Eygló byrjaði snörunina af miklu öryggi og lyfti 99kg, 102kg og loks 105kg sem var bæting á hennar eigin íslandsmeti um 1kg en einnig bæting á norðurlandametinu í snörun um 1kg sem var í eigu hinnar Sænsku Patricia Strenius. Hin Þýska Lisa Marie Schweizer kom öllum að óvörum og bætti sig um 4kg í snörun og lyfti 107kg eftir um 12 ára keppnisferil og vann silfur í snörun en Eygló varð fjórða í snörun á eftir hinni hvít-rússnesku Siuzanna Valodzka sem lyfti 105kg líkt og Eygló en gerði það í annari tilraun en ekki þeirri þriðju. Elena Loredana Toma lyfti 114kg í snörun og sigraði þá grein.

Í jafnhendingunni byrjaði Eygló á 125kg sem er næst þyngsta lyfta sem hún hefur lyft á móti og fór hún örugglega upp, Eygló var þegar þarna komið með 230kg í samanlögðu en Lisa Marie hafði lokið keppni með 124kg í jafnhendingu og 231kg. Enn átti nokkur fjöldi keppenda eftir að lyfta, Eygló meldaði 128kg og við tók nokkur bið en bæði hin ísraelska Celia Gold og breska Sarah Davies lyftu 128kg í þriðju tilraun. Eygló hækkaði síðan í 129kg og fyrsta tilraun hennar fór ekki vel og hún missti jafnvægið í botnstöðunni, hún fékk því tvær mínútur til að hefja aðra tilraun en ef hún hefði lyft þeirri þyngd hefði hún komist í annað sætið og aðeins Valodzka og Toma eftir að klára sínar lyftur og bronsverðlaun því örugg. Loka tilraun Eyglóar gekk mun betur þar sem hún stóð upp með þyngdina og jarkaði henni upp fyrir haus en missti stöngina fram fyrir sig. Hún endar því í 5.sæti í jafnhendingu og í 4.sæti í heildina 1kg á eftir Lisa Marie. Elena Loredana Toma klikkaði nokkuð óvænt á tveimur tilraunum við 131kg og við það færðust Ísrael og Bretland í verðlaunasæti í jafnhendingu.

125kg opnunarlyfta hjá Eygló í jafnhendingu. Ljósmynd: Isaac Morillas Sanchez (www.worldweightliftingmedia.com)

Aðeins er eitt mót eftir sem telur til úrtöku fyrir ólympíuleikana og fer það fram í lok Mars í Taílandi. Uppfærður OQR listi mun birtast þegar Eyjaálfu og Pan-American meistaramótin klárast en með árangri sínum í dag jafnaði Lisa Marie árangur Eyglóar, einnig hefur einn keppandi frá Afríku og einn keppandi frá Kóreu farið upp fyrir hana á OQR listanum og því mikil barátta fyrir hendi. Ísland hefur sótt um jöfnunarsæti (e. universality) fyrir Eygló á ólympíuleikunum í París en ekkert er öruggt í þeim efnum að hún fái því úthlutuðu og þátttaka hennar í -71kg flokknum mun fara eftir því hvort frakkar nýta sér sín tvö sæti sem þeir hafa sem aðilar sem halda leikana (e.host nation) og því er enginn öruggur inn nema tíu efstu keppendur á OQR í þyngdarflokknum.

Íslandsmeistaramótið í lyftingum sýnt á RÚV

Í dag laugardag 26. apríl, klukkan 15:45-17:25 verður sýnt frá Íslandsmeistaramótinu í Ólympískum lyftingum sem haldið var fyrir viku síðan, eða laugardaginn 19. apríl.

Það eru gleðitíðindi að fjölmiðlar séu farnir að fjalla um og sýna frá lyftingum aftur. Enda margir sem sakna þess tíma þegar fjölskyldan settist fyrir framan sjónvarpið og horfði á lyftingar. Það er því kjörið tækifæri í dag.

Við þökkum LFR, Sportlíf, FiskSpa, ERGO, Múrlínunni, Hámark, Sportvörum og Velmerkt fyrir að styrkja mótið og gera okkur kleift að greiða fyrir upptöku Sport TV í keppninni. Við þökkum svo RÚV fyrir að sýna Íslandsmeistaramótið og vekja þannig athygli á þessari ör vaxandi íþrótt.

Hægt er að sjá uptökuna af íslandsmótinu í sarpinum hjá RÚV: http://ruv.is/sarpurinn/islandsmotid-i-olympiskum-lyftingu/26042014-0