Eygló Fanndal og Brynjar Logi Lyftingafólk ársins 2023

Stjórn lyftingasambandsins hefur valið lyftingafólk ársins 2023, einnig eru ungmenni ársins valinn í flokki 18-20 ára, 16-17 ára og 15 ára og yngri. Afhending farandbikara mun eiga sér stað á næstu vikum, ef þið eruð með bikar og ekki hefur verið haft samband við ykkur megið þið endilega láta Maríönnu framkvæmdastjóra vita í gegnum lsi@lsi.is.

Eins og fyrri ár er valið samkvæmt 18.Grein úr lögum LSÍ.

18. Stjórn og varamenn hafa atkvæðisrétt um val á lyftingakonu og karli ársins, valið skal ávallt miðast við tímabilið 1. Desember til 30. Nóvember. Ef óskað er eftir því getur kosning verið nafnlaus. Val á lyftingakonu og karli ársins skal miðast við árangur íþróttamannsins á liðnu ári og er þá sérstaklega horft til Sinclair stigatölu sem og árangur á alþjóðlegum mótum. Íþróttamenn koma ekki til greina í vali á lyftingakonu og karli ársins á meðan þeir taka út refsingu og í eitt ár eftir að refsingu lýkur vegna brota á lyfjalögum ÍSÍ, IWF og/eða WADA.

Besta Lyftingakonan : Eygló Fanndal Sturludóttir

Eygló snarar jafnar norðurlandametið í snörun þegar hún lyftir 104kg í Katar
  • Eygló Fanndal Sturludóttir (f.2001) úr Lyftingafélagi Reykjavíkur stendur í ströngu þessa dagana við að tryggja sér farmiða á Ólympíuleikana í París 2024. Á tímabilinu sem valið er eftir keppti hún á fimm mótum.
  • Fyrst Heimsmeistaramótinu 2022 sem fram fór 11.Desember í fyrra í Bogota í Kólumbíu. Þar lyfti Eygló 94kg í snörun og 119kg í jafnhendingu alls 213kg og dugði henni í 19.sætið. Þetta var jafnframt fyrsta mótið sem taldi til þátttöku í París.
  • Næst var það íslandsmeistaramótið þar sem hún lyfti 96 í snörun og 115kg í jafnhendingu.
  • Þar næst keppti hún á Evrópumeistaramótinu í Yerevan í Armeníu þar sem hún varð í 6.sæti með 96kg í snörun og 121kg í jafnhendingu. Jafnhendingin var nýtt Íslandsmet.
  • Næst keppti hún á Prand Prix I sem haldið var á Havana á Kúbu. Þar endaði hún í 7.sæti með 100kg í snörun (nýtt Íslandsmet) og 120kg í jafnhendingu sem var jafnframt nýtt Íslandsmet í samanlögðum árangri 220kg.
  • Að lokum keppti hún í September síðastliðnum á Heimsmeistaramótinu í Ryiadh í Saudi-Arabíu þar sem hún varð í 17.sæti og lyfti 102kg í snörun (aftur bæting á íslandsmeti) og 123kg í jafnhendingu sem var bæting á íslandsmeti og bæting á íslandsmeti í samanlögðum árangri 225kg.
  • Í Katar nú í Desember gerði hún enn betur og lyfti 104kg í snörun og 127kg í jafnhendingu sem eru íslandsmet og samanlagði árangurinn er 231kg sem hafði dugað í silfur verðlaun á EM 2023.
  • Hún endar árið í 14.sæti á úrtökulista fyrir Ólympíuleikana, með fimmta besta árangur Evrópubúa (tímabil sem nær frá Desember 2022).
  • Hún endar árið í 19.sæti á heimslista (long-list) einnig fimmta best Evrópubúa þar.
  • Hún lyfti mest 231kg á árinu og bætti sinn besta árangur um 14kg.
  • Strangt tiltekið telst 225kg og 276.5 Sinclair stig til valsins. Árangur hennar í Katar gaf síðan 283.3 stig.
  • Fyrir árið átti hún bestan árangur 217kg sem hún lyfti er hún varð Evrópumeistari í flokki 21-23 ára 2022.
  • Hún setti 12 Íslandsmet í fullorðinsflokki á árinu sem einnig voru Íslandsmet í flokki 23 ára og yngri 2022.

Besti Lyftingamaðurinn : Brynjar Logi Halldórsson

Brynjar Logi Halldórsson á Evrópumeistaramóti Ungmenna 2023

Brynjar Logi Halldórsson (f.2002) úr Lyftingafélagi Reykjavíkur er lyftingamaður ársins annað árið í röð. Valið stóð tæpt á milli Brynjars og Sigurðar Darra Rafnssonar einnig úr Lyftingafélagi Reykjavíkur en meirihluti stjórnar valdi Brynjar og spilaði þátttaka hans og árangur á mótum erlendis þar stóra rullu.

  • Brynjar keppti á alls fimm mótum á árinu, þar að þremur erlendis.
  • Bestum árangri náði hann á Sumarmótinu þar sem hann lyfti 293kg sem gaf honum 359,2 Sinclair stig. Sigurður Darri lyfti 297kg í sama þyngdarflokk og Brynjar á sumarmótinu og fékk fyrir það 361.4 Sinclair stig. Þetta er í fyrsta sinn á síðustu 10 árum sem stigahæsti lyftingamaður ársins er ekki valinn lyftingamaður ársins.
  • Hann vann silfur í -89kg flokki á Norðurlandameistaramótinu þar sem hann lyfti einnig 293kg.
  • Hann var annar stigahæstur karl keppenda á Smáþjóðamótinu í lyftingum.
  • Þriðji stigahæstur keppenda á Reykjavík International Games 2023.
  • Hann varð í 10. Sæti á Evrópumeistaramóti Ungmenna 21-23 ára í -89kg flokki.
  • Hann setti tvö íslandsmet í fullorðinsflokki á árinu og 7 íslandsmet í flokki 21-23 ára.

Ungmenni ársins Konur 18-20 ára

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir (f.2005) úr Lyftingadeild Stjörnunnar hóf árið með krafti þar sem hún varð hæst kvenna á Sinclair stigum á Reykjavík International Games 2023 með því að lyfta 185kg í -71kg flokk sem gáfu henni 237.2 Stig. Hún varð önnur á Íslandsmeistaramótinu í -71kg flokk á eftir Eygló. Hún varð íslandsmeistari unglinga í -71kg flokk. Hún keppti einu sinni erlendis á árinu á Evrópumeistaramóti 20 ára og yngri þar sem hún keppti í -64kg flokk í fyrsta sinn á alþjóðlegu móti síðan 2019. Þar féll hún úr leik á opnunarþyngd í snörun en kemur reynslunni ríkari til baka.

Ungmenni ársins Karlar 18-20 ára

Bjarki Breiðfjörð með 121kg á Norðurlandameistaramóti Unglinga

Bjarki Breiðfjörð (f.2003) úr Lyftingafélagi Reykjavíkur er bestur í flokki 18-20 ára karla. Hann lyfti mest 260kg í -81kg flokki á árinu þegar hann varð Íslandsmeistari í -81kg flokki. Það gáfu honum 331 Sinclair stig. Hann keppti einnig á Íslandsmeistaramóti Unglinga þar sem hann sigraði sama flokk, á Norðurlandameistaramóti Unglinga snaraði hann 121kg en féll úr leik í jafnhendingu. Síðasta mótið hans var smáþjóðamótið í lyftingum sem fram fóru í Lúxemborg í lok Nóvember. Þar lyfti hann 250kg samanlagt og varð 10 hæsti á stigum.

Ungmenni ársins Konur 16-17 ára

Guðrún Helga Sigurðardóttir á Norðurlandamóti Unglinga í Finnlandi

Guðrún Helga Sigurðardóttir (f.2006) fulltrúi hins nýstofnaða Lyftingafélags Vestra náði bestum árangri kvenna 16-17 ára á árinu. Það gerði hún þegar hún lyfti 137kg í +81kg flokki á íslandsmeistaramóti unglinga sem gáfu henni 144.4 Sinclair stig. Hún keppti einnig á Haustmótinu og á Norðurlandamóti Unglinga þar sem hún varð önnur í +81kg flokki 17 ára og yngri á sínu fyrsta alþjóðlega móti.

Ungmenni ársins Karlar 16-17 ára

Kristinn Þór Hilmarsson (f.2007) úr Lyftingafélagi Reykjavíkur lyfti 118kg samanlagt í -67kg flokki á Sumarmóti LSÍ og varð það stigahæsti árangurinn í flokki 16-17 ára, 175.8 Sinclair stig.

Ungmenni ársins Konur 15 ára og yngri

Steindís Elín Magnúsdóttir (f.2008) úr Lyftingafélagi Reykjavíkur náði bestum árangri kvenna 15 ára og yngri á árinu þegar hún lyfti 110kg í -71kg flokki á Haustmóti LSÍ. Hún keppti einnig á sumarmótinu og Íslandsmeistaramóti Unglinga þar sem hún vann silfurverðlaun í -71kg flokki 17 ára og yngri.

Ungmenni ársins Karlar 15 ára og yngri

Stígur Bergmann Þórðarson (f.2008) úr Lyftingadeild Mosfellsbæjar lyfti 98kg samtals í -67kg flokk sem gáfu honum 148 Sinclair stig á Haustmóti LSÍ. Það var besti árangur í flokki 15 ára og yngri.