Þórbergur Ernir mættur á HM og Anna Guðrún, Steinunn og Haukur á EM masters

Þórbergur Ernir og Ingi Gunnar landsliðsþjálfari eru nú komnir út til Lima í Perú þar sem Þórbergur keppir á World Youth Weightlifting Championships. Þórbergur keppir í 102kg flokki á morgun, sunnudaginn 4. maí klukkan 13:30 á staðartíma eða klukkan 18:30 á íslenskum tíma.
Mótinu er streymt á Facebook síðu IWF

Við eigum síðan þrjá keppendur sem eru nú staddir í Albaníu til að keppa á Evrópumeistaramóti masters. Þar fer fremst í flokki Anna Guðrún en hún keppir á mánudaginn í -87kg flokki 55-59 ára. Steinunn Sveinsdóttir keppir í 87kg flokki 60-64 ára og Haukur Parelius í 89kg flokki 55-59 ára. Mastersmótinu er streymt á youtube.

Við óskum þeim Þórbergi, Önnu Guðrúnu, Steinunni og Hauki góðs gengis !

Guðný og Bergur ljúka keppni

Síðustu íslensku keppendurnir luku í gær keppni á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fer í Moldóvu.

Bergur Sverrisson (f.1994) keppti á sínu fyrsta stórmóti í lyftingum í -89kg flokki karla. Hann opnaði á 135kg í snörun sem hann fékk ógilda, fór svo í 140kg sem var gild og loks í 142kg sem var ógild. Í jafnhendingunni opnaði hann á 157kg sem var ógild, næsta lyfta 162kg var gild og loks 168kg sem var ógild. Bergur gerði vel að fara í 5kg hækkun og ná þeim lyftum eftir að hafa fengið ógildar fyrstu lyftur. Hann lyfti 302kg í samanlögðum árangri sem dugði í 13.sætið, samanlagður árangur var 1kg bæting á íslandsmetinu í -89kg flokki sem Bergur setti á Jólamóti LSÍ í Desember síðastliðnum.

Bergur með 140kg í snörun. Ljósmynd: Gregor Winter (@atginsta)

Guðný Björk Stefánsdóttir (f.2001) keppti svo í -76kg flokki kvenna, Guðný vigtaðist inn í flokkinn 71.20kg en það var strategísk ákvörðun að fara upp um flokk til að auka möguleika á verðlaunum eða ná hærra sæti í flokknum. Guðný Björk keppti í A-hóp og opnaði á 94kg í snörun, önnur tilraun var við 101kg en við tók nokkuð löng bið en mikil samkeppni var í flokknum, samkvæmt okkar upplýsingum tók Guðný 97kg baksviðs á meðan hún beið eftir sinni tilraun. Hún náði því miður ekki að lyfta 101kg sem hefði tryggt henni bronsverðlaun í snörun og sat hún undir stönginni en missti báðar lyftur aftur fyrir sig. Maria Kireva frá Búlgaríu lyfti 106kg (gull), Iryna Dombrovska frá Úkraínu silfur með 105kg og 5 keppendur lyftu svo 100kg. Fyrst til að lyfta því var Isabella Brown frá Bretlandi og vann hún því brons.

Guðný Björk með 97kg opnunarlyftu í snörun. Ljósmynd: Gregor Winter (@atginsta)

Í jafnhendingunni opnaði hún á 118kg, svo fór hún í 122kg og fyrri hluti lyftunnar cleanið var létt en hún náði ekki að klára jarkið. Loka tilraun hennar var við 125kg sem var einnig ógild. Samanlagður árangur því 212kg og 13.sætið staðreynd, en Guðný á best 218kg frá því á Íslandsmótinu í Febrúar (97kg/121kg).

Eygló Fanndal Evrópumeistari

Eygló Fanndal Sturludóttir (f.2001) gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari í ólympískum lyftingum í gær í -71kg flokki kvenna þegar hún lyfti 109kg í snörun, 135kg í jafnhendingu og 244kg samanlagt. Allt voru þetta ný íslands og norðurlandamet í -71kg flokknum en norðurlanda metið í jafnhendingu tók Eygló af hinni sænsku Patriciu Strenius sem varð einmitt Evrópumeistari 2018 í -69kg flokki og 2022 í -71kg flokk. Eygló bætti sinn persónulega árangur um 5kg í samanlögðu.

Eygló með 109kg í snörun. Ljósmynd: Gregor Winters

Hún háði nokkuð harða baráttu við hina rússnesku Zarina Gusalova (f.2004) sem keppir undir hlutlausum fána (AIN) og var þetta fyrsta stórmótið sem rússar keppa á síðan innrásin í Úkraínu hófst og voru væntingar til Zarinu miklar, Zarina lyfti 110kg í snörun og 131kg í jafnhendingu í annari tilraun en klikkaði á 134kg í loka tilraun til að taka forustu í loka lyftu. Það var umtalað hversu strategískt þyngdarval Inga Gunnars þjálfara Eyglóar var í jafnhendingunni sem hélt Eygló í forustu í fyrstu lyftunum. Þriðja sætið vermdi hin hvít-rússneska Siuzanna Valodzka (f.2000) sem einnig keppir undir hlutlausum fána með 102kg í snörun og 134kg í jafnhendingu. Siuzanna sem er þaulreynd vann silfur á EM í fyrra og varð fjórða á ólympíuleikunum í París, hún var nálægt því að falla úr keppni þegar hún klikkaði 2x á opnunarþyngdinni 101kg í snörun en náði 102kg í loka lyftunni.

Hin finnska Janette Ylisoini (f.2006) átti síðan frábært mót þegar hún snaraði 107kg og jafnhenti 125kg en náði ekki að lyfta 130kg í jafnhendingum þrátt fyrir tvær tilraunir, hún endaði í 4.sæti í samanlögðu. Þýski reynsluboltinn Lisa Marie Shweizer (f.1995) lyfti 108kg í snörun og tók bronsið þar af Janette og varð fimmta. Efastu fjórir keppendurnir í snörun lyftu öllum sínum lyftum, sem er nokkuð óvenjulegt á stórmótum.

Þetta var síðasta stórmótið í -71kg flokk en nýjir þyngdarflokkar IWF munu taka gildi 1.Júní.

Karlar: 60kg, 65kg, 71kg, 79kg, 88kg, 98kg, 110kg, +110kg

Konur: 48kg, 53kg, 58kg, 63kg, 69kg, 77kg, 86kg, +86kg

Kári Einarsson keppti einnig í gær í -81kg flokki karla á sínu fyrsta stórmóti í lyftingum, hann þurfti að hafa töluvert mikið fyrir snöruninni en opnunarþyngdin 117kg fór upp í þriðju tilraun. Jafnhendingin gekk betur en þar lyfti hann mest 147kg. Hann endaði í 16.sæti í flokknum.

Þuríður Erla Helgadóttir í 15.sæti á EM 2025

Þuríður Erla Helgadóttir keppti fyrst íslensku keppendanna á Evrópumeistaramótinu í Ólympískum lyftingum sem fram fer í Chișinău í Moldavíu og varð í 15.sæti -59kg flokk. Þuríður lenti í smá óhappi með ferðalagið til Modavíu og var mætt á staðinn rétt undir 24klst áður en keppni hófst og hafði hún því lítinn tíma til að ná að losa vökva til að ná þyngd.

Með reynslunni náðist þó vigt, Þuríður klikkaði á fyrstu tveimur lyftunum sínum í snörun -76kg og -77kg en náði að lyfta 77kg í þriðju tilraun. Jafnhendingin gekk betur, þar lyfti hún 99kg í opnunarlyftu, því næst 102kg og reyndi loks við 105kg en það fór ekki upp. Samanlagður árangur því 179kg og 15.sætið staðreynd.

Katla Björk Ketilsdóttir keppti svo í -64kg flokk í dag, hún lyfti opunarlyftuna sína 85kg en fór því næst nokkuð örugglega upp með 88kg. Þriðja tilraun við 90kg missti hún aftur fyrir sig en það hefði verið bæting um 2kg á íslandsmetinu í snörun sem er í hennar eigu. Í jafnhendingu fór hún upp með 101kg og svo 105kg en klikkaði á 107kg í loka tilraun. Samanlagt 193kg og hún varð í 26.sæti í -64kg flokk.

Hægt er að fylgjast með úrslitum íslensku keppendanna í gagnagrunni sambandsins results.lsi.is og heildarúrslit á síðu Evrópusambandsins.

Hægt að sjá upptökur úr B og C hópum á EWFSPORT.TV

Íslenski hópurinn kominn út til Moldóvu

Allur íslenski hópurinn er nú kominn út til Moldóvu þar sem Evrópumeistaramótið fer fram.

Dagskráin næstu daga er eftirfarandi á íslenskum tíma:

Þriðjudagurinn 15.apríl: Þuríður Erla (-59) klukkan 10:00
Miðvikudagurinn 16.apríl: Katla Björk (-64) klukkan 07:00
Fimmtudagurinn 17.apríl: Kári Steinn (-81) klukkan 08:00 og Eygló Fanndal (-71) klukkan 13:00 – Bein útsending á RÚV hefst kl 13:00.
Föstudagurinn 18.apríl: Bergur Sverrisson (-89) klukkan 07:00 og Guðný Björk (-76) klukkan 16:00

Hægt er að horfa frítt á alla flokkana á https://ewfsport.tv/ bæði live og eftir á.

ÁFRAM ÍSLAND!

Evrópumeistaramótið í ólympískum lyftingum 13.-21.apríl

Evrópumeistaramótið í ólympískum lyftingum fer fram í Moldóvu dagana 13.-21.apríl nk.
Ísland á sex keppendur á mótinu að þessu sinni, þau Eygló Fanndal (-71), Guðnýju Björk (-76), Kötlu Björk (-64), Þuríði Erlu (-59), Kára Stein (-81) og Berg (-89). Ingi Gunnar landsliðsþjálfari og Hrund Scheving fylgja hópnum út ásamt Ernu Héðinsdóttur sem verður í hópi dómara á mótinu.

Þuríður hefur keppni þriðjudaginn 15.apríl, Katla keppir 16.apríl og Kári Steinn og Eygló keppa þann 17.apríl og Guðný og Bergur þann 18.apríl.
Í fyrsta skipti í sögu ólympískra lyftinga á Íslandi mun RÚV sýna beint frá -71kg flokknum sem Eygló Fanndal keppir í. Útsendingin hefst klukkan 14:00 á skírdag á RÚV2.

Eygló er með hæsta skráða „entry total“ í sínum flokki, eða 245kg og því er ljóst að allra augu verða á henni. Á mótinu verður síðan tilkynnt hver hlýtur titilinn „Weightlifter of the year 2024“ sem Eygló er tilnefnd til svo það eru spennandi dagar framundan.

52.Lyftingaþing LSÍ

Þann 2.apríl sl. fór fram 52. lyftingaþing Lyftingasambands Íslands.
Á þinginu var Harpa Þorláksdóttir kjörinn formaðursambandsins og tekur hún við af Helgu Hlín Hákonardóttur sem við færum kærar þakkir fyrir óeigingjörn störf.

Harpa Þórhallsdóttir formaður Lyftingasambands Íslands

Önnur sem kosin voru í stjórn sambandsins á þinginu voru Ásgeir Bjarnason, Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, Adam Eliasen og Hrund Scheving. Í varastjórn vour kosin þau Indíana Lind Gylfadóttir og Birkir Örn Jónsson. Áheyrnafulltrúar íþróttamanna í stjórn eru áfram þau Erla Ágústsdóttir og Gerald Brimir Einarsson. Ásgeir var svo einnig kjörinn formaður tækninefndar.

Að þingi loknu skipti stjórn með sér verkum með eftirfarandi hætti: Ásgeir Bjarnason varaformaður, Adam Eliasen gjaldkeri, Hulda Sólveig ritari og Hrund Scheving meðstjórnandi.

Nýkjörin stjórn og framkvæmdastjóri. F.V. Adam, María Rún, Harpa, Hrund, Hulda og Indíana

Eftir hefðbundin þingstörf sæmdi Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Ernu Héðinsdóttur silfurmerki ÍSÍ fyrir framlag hennar til dómsgæslu í ólympískum lyftingum, bæði innan sem utanlands. Erna dæmdi fyrst allra íslendinga, keppni í ólympískum lyftingum á Ólympíuleikunum í París síðastliðið sumar. Erna var því miður ekki viðstödd til að veita viðurkenningunni viðtöku.

Þá sæmdi Andri, Magnús Brynjólf Þórðarson, fyrrverandi formann og stjórnarmann Lyftingasambandsins, gullmerki ÍSÍ fyrir störf hans í þágu ólympískra lyftinga á Íslandi. Magnús átti stóran þátt í auknum árangri og aukinni veltu sambandsins, m.a. í styrkjum frá afrekssjóði og að koma sambandinu úr C í B samband.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Magnús Brynjólfur Þórðarson.

Lyftingasambandið gerði einnig þá Harald Ólafsson og Inga Gunnar Ólafsson að heiðursfélögum LSÍ en báðir eiga veglegt framlag til framgangs ólympískra lyftinga á Íslandi, Haraldur sem keppandi og Ingi Gunnar sem þjálfari og landsliðsþjálfari.

Haraldur sem er 8.heiðursfélagi LSÍ, var frumkvöðull í lyftingum á Akureyri bæði sem keppnismaður og þjálfari. Hann var virkur keppandi á árunum 1976-1990 og keppti m.a :
2x á EM (‘84,’88)
1x á HM unglinga (´82)
6x á NM (‘77,‘81,‘82,‘83,‘87,‘89) 2x silfur, 1x brons
6x á NM U17 og U20 (‘77,‘78,‘79,‘80,‘81,‘82), 3x meistari
6x á NM (‘77,‘81,‘82,‘83,‘87,‘89), 2x silfur, 1x brons
6x á NM U17 og U20 (‘77,‘78,‘79,‘80,‘81,‘82), 3x meistari

Þá var Haraldur var var tvisvar sinnum valinn Íþróttamaður Akureyrar og hlaut Elite pin NWF.

Ingi Gunnar Ólafsson er 9.heiðursfélagi LSÍ. Hann hefur þjálfað ólympískar lyftingar frá árinu 2014 og verið landsliðsþjálfar í yfir 10 ár. Ingi Gunnar er frumkvöðull í keppnisþjálfun í ólympískum lyftingum á Íslandi og hefur fylgt landsliðinu á 48 mót á erlendri grundu:

HM (‘15,’17,’18,’19,’21,’22,’23,’24) = 8x
HM U20 (‘22) = 1x
HM U17 (‘17) = 1x
EM (‘16,’18,’19,’22,’23,’24) = 6x
EM U20 og U23 (‘16,’18,’21,’22,’23,’24) = 6x
EM U15 og U17 (‘17) = 1x
NM (‘15,’16,’18,’19,’20 (Covid),’21,’23,’24) = 8x
NM U17 og U20 (‘14,’15,’16,’17,’18,’19,’20 (Covid) ,’22,’23) = 9x
Smáþjóðamótið (‘17,’18,’21,’23,’25) = 5x
Úrtökumót ólympíuleika (‘23-’24) = 3x

Harpa, nýkjörinn formaður afhenti Inga Gunnar landsliðsþjálfara viðurkenningu og blómvönd.

Stjórn Lyftingasamband þakkar gestum þingsins fyrir komuna og góðar umræður sem sköpuðust. Einnig þökkum við Valdimari Leó Friðriksyni fyrir þingstjórn og fráfarandi stjórn þökkum við fyrir vel unnin störf og gott samstarf.

Eygló tilnefnd sem lyftingakona ársins 2024 af EWF

Eygló Fanndal Sturludóttir er tilnefnd sem Lyftingakona ársins 2024 af lyftingasambandi Evrópu!

Tíu lyftingakonur frá tíu mismunandi löngum eru tilnefndar en valið verður tilkynnt á lokahófi Evrópumótsins sem fer fram í Moldóvu í apríl.

Tilnefndar eru:

BEKTAS Cansu
CAMBEI Mihaela
CAMPBELL Emile
FEGUE Marie Josephe
GARCIA Marta
KONOTOP Kamila
STURLUDOTTIR Eygló Fanndal
ZIELINSKA Weronika

Ísland kom sá og sigraði Smáþjóðamótið 2025

Ísland kom sá og sigraði smáþjóðamótið í lyftingum sem fram fór í Möltu núna um helgina.
Ísland vann liðakeppni senior, liðakeppni kvenna og var í öðru sæti í liðakeppni karla.
Þá var Eygló Fanndal stigahæst allra kvenna og Guðný Björk önnur í stigakeppni kvenna og Bergur í öðru sæti í stigakeppni karla.

Ísland endaði með 1244.02 stig, Malta með 1195.80 stig, Kýpur 1158.09 stig, Færeyjar 1047.8 stig, Lúxemborg 958.74 stig, Mónakó 766.53 stig og San Marino 752.20 stig. Þetta er þriðja smáaþjóðamótið í röð sem Ísland vinnur stigakeppnina. Smáþjóðamótið í lyftingum er haldið árlega og var þetta 46.árið í röð sem mótið er haldið og er það í raun eldra en hinir eiginlegu smáþjóðleikar.

Hægt er að sjá upptöku frá mótinu á vef EWF TV, það er frítt en það þarf að skrá sig.

Freyja Björt hóf leikinn í D grúppu kvenna sem junior keppandinn okkar með 58kg góðri snörun, hún gerði svo tvær tilraunir við 61kg sem hún náði því miður ekki. Í C&J opnaði hún í 75kg, tók því næst 80kg og reyndi svo við 84kg í lokalyftunni en hún fór ekki upp.

Kári Steinn var næstur á pallinn. Hann snaraði 112-116-120kg. Hann opnaði svo í 141kg í jafnhendingu og tók svo 145kg í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hann við 150kg sem fóru ekki upp.

Næst var komið að B grúppu karla þar sem Bergur opnaði í snörun með 131kg. Í tilraun tvö snaraði hann 135kg en 140kg í þriðju tilraun fóru ekki upp. Hann opnaði svo með 150kg góðri lyftu í jafnhendingu. Reyndi svo tvisvar sinnum við 160kg og var seinni lyftan gild.

Í A grúppu karla lyfti Þórbergur Ernir, hinn junior keppandi liðsins, 130kg í fyrstu tilraun í snörun. 134 og 136kg í tilraun tvö og þrjú vildu hins vegar ekki upp að þessu sinni. Hann reyndi síðan við 160kg í fyrstu tilraun jafnhendingar, sem fór ekki upp. Tók þá 161kg í tilraun tvö og hækkaði svo í 177kg í þriðju tilraun sem var tilraun til 5 kílóa persónulegrar bætingar. Cleanið fór upp en ekki jerkið að þessu sinni.

fv. Kári Einarson, Eygló Fanndal Sturludóttir, Guðný Björk Stefánsdóttir og Bergur Sverrisson

Guðný Björk og Eygló Fanndal voru svo síðastar á pallinn í A grúppu kvenna. Guðný opnaði með 90kg snörun. Missti svo 93kg í tilraun tvö en náði svo 96kg í þriðju tilraun. Í jafnhendingu opnaði hún með 115kg góðri lyftu. Tók svo 119kg í tilraun tvö en rétt missti svo 122kg í þriðju tilraun.

Eygló létti sig ekki fyrir mótið og lyfti því í -76kg flokki, en yfirleitt keppir hún í -71kg flokk. Hún tók seríuna 100-103-106kg í snörun. Opnaði með 125kg í jafnhendingu, tók svo 130kg í annarri lyftu og rétt missti svo jerkið í 134kg lokalyftu sinni en það hefði gefið Eygló 240kg í samanlögðum árangri. Allt voru þetta ný Íslandsmet en Guðný átti metin 97+121 = 218kg. Ef Eygló hefði lyft 134kg í -71kg flokk þá væri þetta 1kg bætingu á Norðurlandameti hennar í samanlögðum, einnig hefði 134kg verið bæting á norðurlandameti Patriciu Strenius í jafnhendingu sem er 133kg.

Líklegt er að Evrópumeistaramótið sem hefst um miðjan Apríl verði síðasta mót landsliðsfólks okkar í þessum þyngdarflokkum þar sem alþjóðalyftingasambandið mun byrja með nýja þyngdarflokka 1.Júní.