Heildarúrslit má nálgast hér: https://results.lsi.is/meet/nordic-championship-ntf-stadfest-dagsetning-2025 og https://nordicweightlifting.com/
Upptaka af mótinu er aðgengileg á nýstofnaðri YouTube-rás sambandsins: https://www.youtube.com/@IcelandicWeightlifting
Stigahæstu keppendur mótsins voru hin finnska Janette Ylisoini með 237 kg samanlagt í -77 kg flokki kvenna og hinn sænski Hugo Ottosson með 355 kg samanlagt í -110 kg flokki karla.
Árangur Íslendinga á mótinu (frétt verður uppfærð með myndum þegar þær berast):
Ísland náði sér í þrjú silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á mótinu.
Katla Björk Ketilsdóttir varð önnur í -63 kg flokki kvenna þegar hún snaraði 86 kg og jafnhenti 103 kg, samtals 189 kg. Þetta var fjórða Norðurlandamót Kötlu og hún var því reynsluboltinn í landsliðinu, þetta er einnig besti árangur hennar á Norðurlandamóti.

Guðný Björk Stefánsdóttir varð önnur í -77 kg flokki þegar hún snaraði 98 kg og jafnhenti 118 kg, samtals 216 kg. Snörunin var nýtt persónulegt met hjá henni og bæting um 1 kg. Þessi árangur var líka annar stigahæsti árangur kvenna á mótinu en Janette Ylisoini frá Finnlandi varð stigahæst og einnig sigraði hún -77 kg flokkinn með 237 kg samanlagt.

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud sem keppti fyrir Íslandshönd á Ólympíuleikunum 2008, 2012 og 2016 í spjótkasti, keppti í fyrsta sinn fyrir Ísland á móti í ólympískum lyftingum og náði í silfur í -86 kg flokki kvenna. Ásdís sem varð fertug fyrir rétt tæpum þremur vikum átti stórgott mót og fór með allar sínar lyftur í gegn, seríuna 74 kg, 77 kg og 80 kg í snörun, í jafnhendingu lyfti hún 99 kg, 102kg og loks 105 kg. Þetta voru einnig met í mastersflokkum 35-39 ára og 40-44 ára. Allt er fertugum fært!

Selma Gísladóttir vann brons í -86 kg flokknum en hún átti einnig gott mót og fór með 5/6 lyftum í gegn. Hún lyfti mest 82 kg í snörun og 102 kg í jafnhendingu, samtals 184 kg eða einu kílói minna en Ásdís sem fór fram fyrir hana með því að lyfta loka lyftunni. Bæði Ásdís og Selma eru búsettar í Svíþjóð og þetta var líka fyrsta mót Selmu þar sem hún keppir fyrir landsliðið.

Tindur Elíasen eini íslenski karlkeppandi mótsins varð í 5. sæti í -88 kg flokk. Hann setti nýtt Íslandsmet í flokki 20 ára og yngri og 23 ára og yngri í jafnhendingu og samanlögðum árangri þegar hann lyfti 119 kg í snörun, 142 kg í jafnhendingu og 261 kg samtals. Áður hafði hann lyft 142 kg á innanfélagsmóti í ágúst en þau gilda ekki til meta.
Erla Ágústsdóttir féll úr keppni í snörun með 98 kg í fyrsta sinn á ferlinum, hún kom hinsvegar sterk til baka í jafnhendingunni og bætti sinn besta árangur um 3 kg og lyfti 125 kg.

Thelma Mist Oddsdóttir lyfti mest 72 kg í snörun og 89 kg í jafnhendingu, samtals 161 kg og varð í 4. sæti í -58 kg flokki.
Freyja Björt Svavarsdóttir lyfti 60 kg í snörun og 80 kg í jafnhendingu, samtals 140 kg og varð í 5. sæti í -58 kg flokki.
Snædís Líf Pálmarsdóttir sýndi af sér keppnishörku þegar hún lyfti 71 kg í snörun í þriðju tilraun og jafnhenti síðan 95 kg, samtals 166 kg og varð í 7. sæti í -63 kg flokki kvenna.
Sólveig Ásta Gautadóttir tók cat.2 alþjóðleg dómararéttindi, Lárus Páll Pálsson (cat.1) starfaði einnig á mótinu.

Liðakeppni kvenna (öll lið áttu keppanda sem féll úr leik):
Danmörk 34 stig
Finnland 32 stig
Svíþjóð 28 stig
Ísland 24 stig
Liðakeppni karla
Danmörk 28 stig
Svíþjóð 25 stig
Noregur 23 stig
Finnland 22 stig
Færeyjar 5 stig
Ísland 2 stig