Nýr framkvæmdastjóri Lyftingasambands Íslands
Lyftingasamband Íslands hefur ráðið Arnór Ásgeirsson sem nýjan framkvæmdastjóra sambandsins.

Arnór, sem er með M.sc. í íþróttastjórnun, starfaði síðast sem íþrótta- og markaðsstjóri HK, auk þess sem hann var staðgengill framkvæmdastjóra. Hann er uppalinn í Fjölni og hefur starfað á fjölmörgum sviðum íþróttahreyfingarinnar, bæði hér á landi og erlendis. Hann hefur víðtæka reynslu af verkefnastjórnun af ýmsum stærðargráðum, auk þess sem hann þekkir vel til rekstrar íþróttahreyfingarinnar og samvinnu við hagaðila innan hennar.
Arnór hefur einnig starfað sem verkefnastjóri afrekssviðs í Borgarholtsskóla í tvö ár og á að baki langan feril sem handboltaþjálfari. Þessi reynsla hefur veitt honum dýrmæta innsýn í mikilvægi samskipta, fagmennsku og skipulags í íþróttastarfi.
Arnór tekur formlega við starfi framkvæmdastjóra Lyftingasambandsins af Maríu Rún þann 1. september nk.
Við þökkum Maríu Rún kærlega fyrir mjög vel unnin störf og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi sem og Arnóri í starfi framkvæmdastjóra Lyftingasambandsins.