Síðustu íslensku keppendurnir luku í gær keppni á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fer í Moldóvu.
Bergur Sverrisson (f.1994) keppti á sínu fyrsta stórmóti í lyftingum í -89kg flokki karla. Hann opnaði á 135kg í snörun sem hann fékk ógilda, fór svo í 140kg sem var gild og loks í 142kg sem var ógild. Í jafnhendingunni opnaði hann á 157kg sem var ógild, næsta lyfta 162kg var gild og loks 168kg sem var ógild. Bergur gerði vel að fara í 5kg hækkun og ná þeim lyftum eftir að hafa fengið ógildar fyrstu lyftur. Hann lyfti 302kg í samanlögðum árangri sem dugði í 13.sætið, samanlagður árangur var 1kg bæting á íslandsmetinu í -89kg flokki sem Bergur setti á Jólamóti LSÍ í Desember síðastliðnum.

Guðný Björk Stefánsdóttir (f.2001) keppti svo í -76kg flokki kvenna, Guðný vigtaðist inn í flokkinn 71.20kg en það var strategísk ákvörðun að fara upp um flokk til að auka möguleika á verðlaunum eða ná hærra sæti í flokknum. Guðný Björk keppti í A-hóp og opnaði á 94kg í snörun, önnur tilraun var við 101kg en við tók nokkuð löng bið en mikil samkeppni var í flokknum, samkvæmt okkar upplýsingum tók Guðný 97kg baksviðs á meðan hún beið eftir sinni tilraun. Hún náði því miður ekki að lyfta 101kg sem hefði tryggt henni bronsverðlaun í snörun og sat hún undir stönginni en missti báðar lyftur aftur fyrir sig. Maria Kireva frá Búlgaríu lyfti 106kg (gull), Iryna Dombrovska frá Úkraínu silfur með 105kg og 5 keppendur lyftu svo 100kg. Fyrst til að lyfta því var Isabella Brown frá Bretlandi og vann hún því brons.

Í jafnhendingunni opnaði hún á 118kg, svo fór hún í 122kg og fyrri hluti lyftunnar cleanið var létt en hún náði ekki að klára jarkið. Loka tilraun hennar var við 125kg sem var einnig ógild. Samanlagður árangur því 212kg og 13.sætið staðreynd, en Guðný á best 218kg frá því á Íslandsmótinu í Febrúar (97kg/121kg).