Ísland kom sá og sigraði Smáþjóðamótið 2025

Ísland kom sá og sigraði smáþjóðamótið í lyftingum sem fram fór í Möltu núna um helgina.
Ísland vann liðakeppni senior, liðakeppni kvenna og var í öðru sæti í liðakeppni karla.
Þá var Eygló Fanndal stigahæst allra kvenna og Guðný Björk önnur í stigakeppni kvenna og Bergur í öðru sæti í stigakeppni karla.

Ísland endaði með 1244.02 stig, Malta með 1195.80 stig, Kýpur 1158.09 stig, Færeyjar 1047.8 stig, Lúxemborg 958.74 stig, Mónakó 766.53 stig og San Marino 752.20 stig. Þetta er þriðja smáaþjóðamótið í röð sem Ísland vinnur stigakeppnina. Smáþjóðamótið í lyftingum er haldið árlega og var þetta 46.árið í röð sem mótið er haldið og er það í raun eldra en hinir eiginlegu smáþjóðleikar.

Hægt er að sjá upptöku frá mótinu á vef EWF TV, það er frítt en það þarf að skrá sig.

Freyja Björt hóf leikinn í D grúppu kvenna sem junior keppandinn okkar með 58kg góðri snörun, hún gerði svo tvær tilraunir við 61kg sem hún náði því miður ekki. Í C&J opnaði hún í 75kg, tók því næst 80kg og reyndi svo við 84kg í lokalyftunni en hún fór ekki upp.

Kári Steinn var næstur á pallinn. Hann snaraði 112-116-120kg. Hann opnaði svo í 141kg í jafnhendingu og tók svo 145kg í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hann við 150kg sem fóru ekki upp.

Næst var komið að B grúppu karla þar sem Bergur opnaði í snörun með 131kg. Í tilraun tvö snaraði hann 135kg en 140kg í þriðju tilraun fóru ekki upp. Hann opnaði svo með 150kg góðri lyftu í jafnhendingu. Reyndi svo tvisvar sinnum við 160kg og var seinni lyftan gild.

Í A grúppu karla lyfti Þórbergur Ernir, hinn junior keppandi liðsins, 130kg í fyrstu tilraun í snörun. 134 og 136kg í tilraun tvö og þrjú vildu hins vegar ekki upp að þessu sinni. Hann reyndi síðan við 160kg í fyrstu tilraun jafnhendingar, sem fór ekki upp. Tók þá 161kg í tilraun tvö og hækkaði svo í 177kg í þriðju tilraun sem var tilraun til 5 kílóa persónulegrar bætingar. Cleanið fór upp en ekki jerkið að þessu sinni.

fv. Kári Einarson, Eygló Fanndal Sturludóttir, Guðný Björk Stefánsdóttir og Bergur Sverrisson

Guðný Björk og Eygló Fanndal voru svo síðastar á pallinn í A grúppu kvenna. Guðný opnaði með 90kg snörun. Missti svo 93kg í tilraun tvö en náði svo 96kg í þriðju tilraun. Í jafnhendingu opnaði hún með 115kg góðri lyftu. Tók svo 119kg í tilraun tvö en rétt missti svo 122kg í þriðju tilraun.

Eygló létti sig ekki fyrir mótið og lyfti því í -76kg flokki, en yfirleitt keppir hún í -71kg flokk. Hún tók seríuna 100-103-106kg í snörun. Opnaði með 125kg í jafnhendingu, tók svo 130kg í annarri lyftu og rétt missti svo jerkið í 134kg lokalyftu sinni en það hefði gefið Eygló 240kg í samanlögðum árangri. Allt voru þetta ný Íslandsmet en Guðný átti metin 97+121 = 218kg. Ef Eygló hefði lyft 134kg í -71kg flokk þá væri þetta 1kg bætingu á Norðurlandameti hennar í samanlögðum, einnig hefði 134kg verið bæting á norðurlandameti Patriciu Strenius í jafnhendingu sem er 133kg.

Líklegt er að Evrópumeistaramótið sem hefst um miðjan Apríl verði síðasta mót landsliðsfólks okkar í þessum þyngdarflokkum þar sem alþjóðalyftingasambandið mun byrja með nýja þyngdarflokka 1.Júní.

Færðu inn athugasemd