Þann 4.janúar sl. fór fram sameiginlegt hóf Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Samtaka íþróttafréttamanna (SÍ) í Silfurbergi í Hörpu, þar sem ÍSÍ afhenti viðurkenningar til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ og kjör SÍ á Íþróttamanni ársins var tilkynnt.

Eins og áður hefur komið fram var Eygló Fanndal tilnefnd sem Íþróttamaður ársins en það var í fyrsta sinn sem keppandi í ólympískum lyftingum er tilnefndur.
Á hófinu var þeim Eygló og Þórbergi Erni Hlynssyni veittar viðurkenningar sem lyftingakona og lyftingamaður ársins 2024. Eygló fékk svo einnig viðurkenningu fyrir að vera meðal efstu 10 í valinu á Íþróttamanni ársins 2024.
Hápunktur kvöldins var svo þegar kom í ljós að Eygló var meðal þriggja efstu í valinu, ásamt þeim Sóleyju Margréti kraftlyftingakonu og Glódísi Perlu knattspyrnukonu. Titillinn féll í skaut Glódísar Perlu, annað sætið hlaut Sóley og Eygló endaði í þriðja sæti. Stórkostlegur árangur og einstaklega ánægjulegt að sjá tvær konur úr lyftingagreinum meðal þeirra efstu í valinu.
Innilegar hamingjuóskir sendum við Eygló Fanndal, sem er frábær fyrirmynd og fulltrúi okkar íþróttar. Þá óskum við Sóleyju Margréti innilegar til hamingju með annað sætið og Glódísi Perlu með titilinn Íþróttamaður ársins 2024.



