Sjá heildarúrslit á síðu norðurlandasambandsins og íslensku keppendana í gagnagrunni LSÍ.
Hægt er að nálgast myndir frá mótinu hér
Helstu úrslit:
Þórbergur Ernir Hlynsson varð Norðurlandameistari í -96kg flokki karla 20 ára og yngri þegar hann lyfti 132kg í snörun og 157kg í jafnhendingu alls 289kg. Þetta er fjórði unglingatitill Þórbergs en hann varð Norðurlandameistari 17 ára og yngri árin 2021 og 2022 og svo árið 2023 í flokki 20 ára og yngri þá í -89kg flokki.

Unnur Sjöfn Jónasdóttir vann silfur í +87kg flokki kvenna 20 ára og yngri þegar hún lyfti 65kg í snörun og 91kg í jafnhendingu. Þetta var hennar fyrsta alþjóðlega mót.

Birna Ólafsdóttir setti ný Íslandsmet í snörun, jafnhendingu og samanlögðu í -49kg flokkum U17, U20 og U23 kvenna.

Önnur úrslit:
Steindís Elín Magnúsdóttir varð í 7.sæti í -71kg flokki 17 ára og yngri með 61kg í snörun og 83kg í jafnhendingu. Bæting á hennar besta árangri um 3kg. Mótið var fyrsta alþjóðlega mót Steindísar.

Freyja Björt Svavarsdóttir varð í 6.sæti í -59kg flokki kvenna 20 ára og yngri með 58kg í snörun og 81kg í jafnhendingu, 139kg í samanlögðu var bæting á hennar besta árangri um 3kg og mótið var hennar fyrsta alþjóðlega lyftingamót.

Bríet Anna Heiðarsdóttir varð í 7.sæti í sama flokk og Freyja Björt (-59kg 20 ára og yngri) hún lyfti 62kg í snörun og 72kg í jafnhendingu.

Emilía Nótt Davíðsdóttir varð í 4.sæti í -64kg flokk 20 ára og yngri með 63kg í snörun og 82kg í jafnhendingu, 1kg bæting á hennar besta árangri. En Emilía keppti á sínu fyrsta móti í Febrúar í ár og hefur bætt sig um 16kg síðan þá.

Hildur Guðbjarnadóttir varð í 6.sæti í -71kg flokk 20 ára og yngri með 71kg í snörun og 85kg í jafnhendingu. Hún lyfti öllum sínum lyftum og bætti sig um 18kg, mótið var einnig fyrsta alþjóðlega mótið hennar.

Viktor Jónsson varð í 5.sæti í -81kg flokki 20ára og yngri, hann lyfti 95kg í snörun og 131kg í jafnhendingu. Hann var nálægt því að falla úr leik í snörun en hann náði opnunarþyngdinni í lokatilrauninni. Jafnhendingin gekk betur og allar þrjár lyftiurnar fóru upp og 1kg bæting á hans besta árangri í jafnhendingu. Mótið var fyrsta alþjóðlega mótið hans.

Tindur Elíasen varð í 7.sæti í -89kg flokki 20 ára og yngri með 113kg í snörun og 123kg í jafnhendingu.
