Söguleg stund þegar þær Eygló Fanndal og Guðný Björk stóðu saman á verðlaunapalli

Það var stór dagur í dag í sögu íslenskra lyftinga þegar tveir íslenskir keppendur stóðu í fyrsta skipti saman á palli á stórmóti.

Eygló Fanndal Sturludóttir varð Evrópumeistari ungmenna í ólympískum lyftingum í 71kg flokki U23 (21-23 ára). Eygló setti nýtt norðurlandamet í fullorðinsflokki í samanlögðum árangri þegar hún lyfti 104kg í snörun og 133kg í jafnhendingu, alls 237kg sem var bæting á hennar eigin meti í samanlögðu um 1kg. Hún lyfti 26kg meira en næsti keppandi og hefði árangur hennar dugað til 6. sætis á Ólympíuleikunum í París síðastliðið sumar og silfur á Evrópumeistaramóti fullorðinna.

Guðný Björk Stefánsdóttir átti einnig frábæran dag en hún varð þriðja í sama þyngdar- og aldursflokki. Guðný Björk lyfti næst þyngst allra keppenda í snörun eða 96kg og 114kg jafnhendingu, samanlagt 210kg.
Stórkostlegur árangur hjá þeim báðum.

Það var síðan skemmtileg stund þegar Hörpu, móður Eyglóar, hlotnaðist sá heiður að fá að afhenda verðlaunin fyrir samanlagðan árangur.

Heildar úrslit frá mótinu má nálgast á heimasíðu EWF og í gagnagrunni sambandsins results.lsi.is.

Mótið fer fram í Póllandi og stendur til 4.nóvember nk.
Þórbergur Ernir Hlynsson keppir í 96kg flokki U20 á morgun föstudaginn 1. nóvember og Erla Ágústsdóttir keppir í +87kg flokki U23 sunnudaginn 3.nóvember.

fv. Patrik Helgeson, Jennifer Andersson (SWE), Harpa Þórláksdóttir, Eygló Fanndal Sturludóttir, Guðný Björk Stefánsdóttir, Stephanie Martin Lopez (3.sæti jafnhending) og Erna Héðinsdóttir

fv. Eygló Fanndal Sturludóttir, Sigurður Darri Rafnsson (landsliðsþjálfari), Ingi Gunnar Ólafsson (landsliðsþjálfari) og Guðný Björk Stefánsdóttir
Verðlaunaafhending, Harpa og Eygló faðmast

Færðu inn athugasemd