
María Rún Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Lyftingasambands
Íslands, en hún var valin úr hópi 18 umsækjenda um starfið.
María Rún er með BA í stjórnmálafræði og viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu, auk þess að vera með kennsluréttindi og menntaður styrktarþjálfari.
María Rún átti og rak CrossFit Hengil í Hveragerði í 11 ár eða til ársins 2023 og
starfaði þar sem framkvæmdastjóri og þjálfari, meðal annars í ólympískum lyftingum.
María Rún hefur umfangsmikla reynslu af rekstri, stjórnun og íþróttastarfi og kom
m.a. að stofnun CrossFit sambands Íslands og Lyftingadeildar Hengils og hefur setið
í stjórnum þeirra beggja.
Hún hefur einnig setið í stjórnum Íþróttafélagsins Hamars og Lyftingasambands
Íslands, og hefur m.a. komið að keppnishaldi í ólympískum lyftingum, þar á meðal á
Norðurlandamóti sem haldið var á Íslandi í ólympískum lyftingum árið 2018.
María Rún hefur störf 1. ágúst næstkomandi.