Eygló í 11.sæti í Tælandi

Eygló Fanndal Sturludóttir hélt áfram að skrifa lyftingasögu Íslands í dag þegar hún lauk keppni á IWF World Cup í Tælandi. Hægt er að sjá heildarúrslit í þyngdarflokknum hennar -71kg HÉR.

Eygló endaði keppnina í 11.sæti á mótinu eftir spennuþrungna keppni en alls voru 41 keppandi sem vigtaðist inn í flokkinn. Nauðsynlegt er fyrir alla sem vilja keppa í París að taka þátt í þessu móti. Eygló keppti í B-hóp en gríðar hörð keppni var bæði í A og B hópnum. Áður en Eygló hóf keppni hafði C-hópur lokið keppni, þar var hin Nígeríska Joy Ogbonne Eze og hún lyfti 239kg í samanlögðum árangri og lyfti sér upp í 11.sætið á ólympíu úrtökulistanum, það var því nauðsynlegt að þeir sem fylgdu á eftir þyrftu að lyfta í það minnsta 240kg til að fara uppfyrir hana og tryggja sig inn á leikana en 10 efstu keppendur fá sjálfkrafa keppnisrétt. Franskur keppandi var/er í 10.sæti og því er 11.sætið nánast öruggt.

Eygló með 130kg í jafnhendingu.

Eygló opnaði í snörun á 103kg sem flugu upp og fór því næst í 106kg sem er 1kg bæting á norðurlanda og íslandsmetinu hennar sem hún setti 12.Febrúar síðastliðinn á Evrópumeistaramótinu. Hún reyndi að lokum við 108kg en missti þá lyftu aftur fyrir sig. Í jafnhendingunni opnaði hún á 130kg, það er 5kg meira en hún lyfti í Búlgaríu á EM og 3kg meira en hún lyfti í Katar í Desember sem er jafnframt hennar besti árangur í jafnhendingu. Sú lyfta fór örugglega upp og samanlagður árangur upp á 236kg. Það er fimm kílóum meira en Eygló hefur lyft og það er einnig nýtt norðurlandamet í samanlögðum árangri í -71kg flokk. Bæting um 5kg en fyrra metið átti fyrrum evrópumeistarinn Patricia Strenius frá Svíþjóð.

Í annari tilraun fór Eygló því næst í 134kg til að komast upp fyrir hina áður nefndu Nígerísku Joy Eze. Hún var mjög nálægt því að standa upp með þá þyngd en þurfti að sleppa henni, þriðja tilraun fór heldur ekki upp og þar við stóð. Eygló endaði önnur evrópubúa í dag og vann meðal annars nýbakaðan evrópumeistara hina Rúmönsku Loredana Elenu Toma.

Eygló gerir sig tilbúna fyrir snörun. Photo: IWF/DBM

Eftir að A-hópurinn lauk keppni er niðurstaðan sú að Eygló endar í 14.sæti á úrtökulistanum fyrir ólympíuleikana (OQR) með 236kg. Nokkrar sviptingar urðu í sætunum í kringum Eygló en hástökkvari dagsins var hin Kúbverska Yeniuska Mirabal Feria sem fór upp um 7 sæti með 9kg bætingu á samanlögðum árangri. Eygló fór hinsvegar upp fyrir bæði hina ítölsku Giulia Miserendino og hina víetnömsku Thi Hong Thanh Pham.

Ekki er öll von enn úti fyrir Eygló en sótt hefur verið um úthlutunarsæti (universality oft nefnt wildcard fyrir hana). Til þess að hún geti nýtt það þarf Frakkland að ákveða að senda ekki keppanda í -71kg flokkinn. En aðeins úthlutunarsæti eða „host nation“ fær sæti í flokknum.

Einnig eru aðrar sviðsmyndir uppi svo að keppendur sem eru neðar á listanum en 11.sæti fá keppnisrétt ef einhverjir af efri keppendunum geta ekki keppt t.d. vegna alvarlegra meiðsla eða þjóð þeirra ákveður að senda þá ekki. Næstu mánuðir munu leiða það í ljós en Eygló hefur í það minnsta gert sitt allra besta til að vera fulltrúi Íslands í París. Eygló keppti á öllum 7 úrtökumótunum fyrir París og byrjaði fyrsta mótið HM 2022 á því að lyfta 213kg og lyfti í dag 236kg svo mikið vatn hefur runnið til sjávar.

Færðu inn athugasemd