Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2024 en styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema alls rúmlega 512 milljónum króna.
Í hlut Lyftingasambands Íslands komu 18.216.000 krónur sem er rúmlega 50% hækkun á milli ára, en árið 2023 nam styrkurinn 11.850.000, þegar lyftingasambandið færðist úr C-sambandi yfir í B-samband. Til samanburðar hlaut LSÍ árið 2022 kr. 2.750.000 úthlutun sem C-samband.
Þessa miklu aukningu undanfarinna ára má fyrst og fremst rekja til framúrskarandi árangurs íslensks lyftingafólks á alþjóðlegum vettvangi og styrkingu á innra starfi, stefnumörkun og áætlanagerð, en á síðasta ári var úthlutunarfyrirkomulagi Afrekssjóðs breytt á þann veg að aðeins eru tveir flokkar sambanda í stað þriggja áður – þ.e. afrekssérsambönd og verkefnasérsambönd og flokkast LSÍ sem afrekssérsamband. Árangur afreksfólks spilar mikilvægan þátt í flokkun í samkvæmt hinu nýja kerfi og hefur árangur lyftingafólks LSÍ á undanförnum árum á alþjóðlegum vettvangi þannig lyft öllum fjárhagslegum forsendum fyrir árangursríkri starfsemi sambandsins.

Innifalið í úthlutun frá Afrekssjóði er beinn einstaklingsstyrkur til Eyglóar Fanndal Sturludóttir, en hún heldur ásamt fleiri keppendum á Evrópumeistaramótið í Sofiu í Búlgaríu þar sem hún mun halda áfram farsælli vegferð sinni til að komast á Ólympíuleikana í París í sumar. En hún er sem stendur í 14.sæti á úrtökulista fyrir leikana í -71kg flokki með fjórða besta árangur Evrópubúa.
Óhætt er að fullyrða að spennandi tímar eru framundan í starfi LSÍ á komandi ári og árum, en nánari grein verður gerð fyrir úthlutun Afrekssjóðs og fjárhagsáætlun LSÍ fyrir starfsárið á Lyftingaþingi sem haldið verður 16. mars næstkomandi.