Íslenska senior liðið sigurvegari á Smáþjóðamótinu í Ólympískum lyftingum 2023

Smáþjóðamótinu í Lúxemborg er nú lokið og Íslenska liðið með frábæran árangur

Heildarúrslit: https://results.lsi.is/meet/smatjodleikar-ostadfest-dagsetning–2023

Mótið var stigakeppni þar sem samanlögð sinclairstig liðsins gildir til verðlauna, en einnig eru stigahæstu keppendur í karla og kvennaflokki verðlaunuð.
Ekki var um þyngdarflokkamót að ræða svo keppendur fá skráðan árangur í þeim þyngdarflokki sem þeir vigtuðust inní á keppnisdegi.
Í hverju liði keppa 2 senior karlar og 2 senior konur auk liðs með 1 junior karli og 1 junior konu.

Ísland vann heildar stigakeppni senior.
Einnig sigruðu Íslensku konurnar stigakeppni kvenna senior.
Senior karlarnir urðu í öðru sæti.
Junior liðið varð í öðru sæti.
Brynjar Logi Halldórsson var annar stigahæsti karl í senior. Hann  setti einnig 4 Íslandsmet á mótinu.
Þuríður Erla Helgadóttir var þriðja stigahæsta kona í senior.

Bríet Anna Heiðarsdóttir hóf keppni af íslensku keppendunum á laugardaginn og var hún kven junior keppandinn okkar.
Hún lyfti 60kg og 63kg í snörun, reyndi síðan við 66kg sem ekki vildi upp, en það var tilraun til 2kg bætingar á hennar besta árangri. Í jafnhendingu lyfti hún 70kg, reyndi við 72kg sem fóru ekki upp en endaði svo á að taka 73kg. Samanlagður árangur hennar var því 136kg. Hún vigtaðist 58,75kg og hlaut 186,61 sinclairstig.

Í síðari keppnishóp laugardagsins kepptu Kári Einarsson og Bjarki Breiðfjörð Björnsson.
Kári í Senior flokki og Bjarki Junior.
Bjarki hóf leikinn á 115kg snörun sem hann missti tvisvar og því var gríðarlega mikilvægt að hann næði þriðju tilrauninni sinni til þess að fá gildan árangur inní sinclair keppnina. Hann gerði það svo með glæsibrag.
Kári lék svo sama leikinn með 117kg. Missti þá þyngd tvisvar en náði henni í þriðju tilraun.
Þeir félagara léku leikinn þveröfugt við aðra keppendur mótsins sem flestir náðu fyrstu tveimur lyftunum sínum en náðu ekki að klára þá síðustu.
Bjarki kom svo sterkur inn í jafnhendinguna. Lyfti 130kg í fyrstu lyftu, 135kg í annarri lyftu og reyndi því næst við 141kg sem ekki vildi upp í dag. Samanlögð þyngd 250kg,  líkamsþyngd 81,25kg sem gáfu honum 316,12 sinclair stig.
Kári hóf jafnhendinguna á 138kg tilraun sem ekki gekk upp, en vildi upp í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hann við 141kg líkt og Bjarki en sú þyngd vildi ekki upp í dag. Samanlögð 255kg og 78,75kg líkasmþyngd gáfu honum 328,74 sinclair stig.

Sunnudagurinn hófst svo á seinni kvennahópinum en þar kepptu þær Katla Björk Ketilsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir fyrir Íslands hönd, báðar í senior flokki.
Katla hóf leikinn á 75kg snörun, tók því næst 80kg og reyndi að lokum við 82kg sem ekki vildu upp í dag.
Þuríður opnaði í 77kg snörun, tók því næsti 80kg og að lokum 83 kg í snörun.
Í jafnhendingu byrjaði Katla á 90kg lyftu, reyndi þvínæst við 93kg en náði ekki að standa upp með það, en tók 93kg svo í þriðju lyftunni. Samanlögð 173kg, líkamsþyngd 62,27kg og 228,73 sinclair stig.
Þurí hóf sína jafnhendingu á 97kg lyftu, hækkaði í 101kg og tók hana líka og reyndi að lokum við 104kg sem ekki vildu upp í dag. Samanlögð 184kg, líkamsþyngd 60,47kg og 247,8 sinclair stig.

Í síðasta hópnum var svo Brynjar einn eftir af Íslenska hópnum og gríðarlega mikilvægt að hann næði gildan í árangur til að liðið næði heildar árangri. Það var því byrjað á vel öruggum lyftum í báðum lyftum. Hann vigtaðist 90,15 kg og er árangurinn hans því skráður í 96kg flokki.
Hann opnaði snörunina í 130kg, sem er U23 í Íslandsmet í 96kg flokki, hækkaði sig svo í 134kg og bætti með því senior Íslandsmetið í 96kg um 4kg. Að lokum reyndi hann við 137kg, en kláraði ekki þá lyftu.
Í jafnhendingunni opnaði hann í örggri 145kg lyftu, enda mikilvægt að ná inn gildri lyftu fyrir heildar árangur liðsins. Hann hækkaði í 153kg í annarri lyftu og bætti með því U23 Íslansmetið um 3kg. Hann reyndi svo við 160 kg sem ekki vildu upp í dag.
Samanlögð  287kg sem er jöfnun á Íslandsmets-standard, líkamþyngd 90,15kg og 344,77 sinclair stig.

Innilega til hamingju – þið eruð sannarlega frábærir fulltrúar Íslands í lyftingum.

1 hugrenning um “Íslenska senior liðið sigurvegari á Smáþjóðamótinu í Ólympískum lyftingum 2023

  1. Bakvísun: Smáþjóðamótið í lyftingum  í Mónakó á laugardaginn | Lyftingasamband Íslands

Færðu inn athugasemd