Þórbergur Ernir Hlynsson Norðurlandameistari í U20/ 89kg flokki.

5 íslendingar kepptu á Norðurlandamóti Youth og Junior sem fram fór í Rovaniemi í Finnlandi núna um helgina.

Áttu Íslendingar einn Norðurlandameistara, Þórberg Erni Hlynsson í U20, 89kg. flokki.
Einnig náði Guðrún Helga Sigurðardóttir silfri í U17 /+87kg flokki.
Heildarúrslit mótsins má finna á https://results.lsi.is/meet/nordurlandamot-u20-og-u17-2023
og https://nordicweightlifting.com/
Jólasveinninn var svo að sjálfsögðu heimsóttur í Rovaniemi.

Youth flokkurinn (U17) keppti á föstudeginum og var Guðrún Helga Sigurðardóttir eini keppandi Íslands þann daginn. Hún keppti í U17/ +81kg en tveir keppendur voru í þeim flokki. Hún hafnaði í öðru sæti.

Photo: Viivi Raudasoja

Guðrún lyfti 58kg snörun í sinni fyrstu lyftu, tók því næst 61kg sem er 1kg bæting á hennar besta árangri og reyndi því næst við 64 kg, sem er jöfnun á Íslandsmetsstandard í hennar þyndar og aldursflokki. Í jafnhendingu lyfti hún 75kg í fyrstu lyftu og reyndi því næst við 80kg sem var tilraun til að bæta eigið Íslandsmet um 1kg, en því miður vildi það ekki alla leið upp á þessu mót. 

Bjarki Breiðfjörð Björnsson hóf leikinn fyrir Ísland á laugardeginum en hann keppti í U20/ 81kg flokki. Hann hóf snörunina á 112kg lyftu, hækkaði því næst í 118kg sem ekki vildu alla leið, hann lét það þó ekki á sig fá, hækkaði í 121kg, sem er aðeins 1 kg undir núverndi Íslandsmeti og henti því upp. Í jafnhendingu fékk Bjarki enga gilda lyftu og var því ekki með samanlagðan árangur eftir mótið. En vissulega sannfærandi árangur í snörun.

Photo: Tapio Nykänen

Bjarki er á leið á Smáþjóðaleikana í Lúxemburg eftir 2 vikur og verður spennandi að sjá hvort hann reyni við Íslandsmetið í snörun þar. Smáþjóðaleikarnir eru liðakeppni milli landa þar sem 2 senior karlar og 1 Junior karl auk 2 senior kvenna og 1 junior konu keppa fyrir hverja þjóð.

Bríet Anna Heiðarsdóttir keppti í U20/ 64kg. Hún hóf sína keppni á 60kg snörun, hækkaði því því næst í 63kg sem einnig fóru upp. Hún hækkaði svo í 66kg sem var tilraun til 2kg persónulegrar bætingar en sú lyfta vildi ekki alveg upp. 

Photo: Tapio Nykänen

Í jafnhendingunni hóf hún leikinn í 64kg, tók því næst 68kg en var eitthvað tæp í baki og lét þar við sitja og sleppti síðustu tilrauninni sinni. Hún hafnaði  í 5. Sæti af 5 keppendum.
Bríet er einnig á leið á smáþjóðaleikana fyrir Íslands hönd.

Að lokum átti Ísland tvo keppendur í U20/ 89kg, þá Tind Eliasen og Þórberg Erni Hlynsson.  5 keppendur voru í flokkinum og gerði Þórbergur sér lítið fyrir og vann flokkinn og endaði því keppni Íslands á þessu norðurlandamóti með Glæsibrag.

Tindur bað um 110 í sinni fyrstu snörun sem ekki vildi upp í fyrstu tilraun, en hann tók hana svo í annarri tilraun. Í þriðju tilraun sinni tók hann 113kg snörun. Í jafnhendingunni hóf hann leik á góðri 119kg lyftu, bað því næst um 125kg sem ekki vildu upp, hækkaði engu að síður í 127kg  og náði þeirri lyftu ekki heldur. Hann endaði í 4. sæti í flokkinum.

Photo: Tapio Nykänen

Þórbergur Ernir hóf einnig leikinn á 110kg sem var jöfnun á hans besta árangri á móti. Því næst bað hann um 113kg sem einnig fóru upp og hækkaði svo í 116 sem flugu líka upp. Svo 6kg bæting á hans besta árangri í snörun í hús og hann leiddi flokkin þegar kom að jafnhendingunni.

Photo: Tapio Nykänen

Í jafnhendingunni opnaði hann síðastur allra með 135kg lyftu, tók 139kg í sinni annarri lyftu og tryggði sér þar með Norðurlandameistaratitilinn og bætti eiginn árangur um 1kg í jafnhendingu og 7kg í samanlögðu.  Hann tók því undir sig stórt stökk, bað um 150kg á stöngina því á þessum tímapunkti var engu að tapa.

Photo: Tapio Nykänen

Tókst honum að cleana stöngina og standa upp, en jerkið vildi ekki alla leið að þessu sinni.
Þetta er fyrsta ár Þórbergs í Juniorflokkinum, svo hann á mikið inni til að bæta sig og gera góða hluti í framtíðinni

Auk keppendanna fóru þjálfararnir Ingi Gunnar Ólafsson og Eggert Ólafsson með.
Erna Héðinsdóttir var yfirdómari á mótinu, en auk þeirra fór Hlynur Skagfjörð Pálsson faðir Þórbergs með á mótið.

Færðu inn athugasemd