
Eygló Fanndal Sturludóttir keppti í 71kg flokki, B riðli í dag 13. september kl. 11:30 (8:30 á íslenskum tíma)
Eygló lyfti best 102kg í snörun, 123kg í jafnhendingu og 225kg í samanlögðu.
Hún bætti með því öll sín eigin Íslandsmet – 2kg í snörun, 2 kg í jafnhendingu og 5 kg í samanlögðu.

Eygló átti fyrstu lyftuna í B riðlinum og opnaði með öruggri 95kg snörun, hún hækkaði því næst í 99kg sem hún tók einnig nokkuð örugglega. Að lokum hækkaði hún í 102kg sem jafnframt er bæting á hennar eigin íslandsmeti um 2 kg og henti þeirri þyngd upp eins og ekkert væri.
Hún var á þessum tímapunkti 3. í B riðlinum eftir snörunina.


Í jafnhendingu opnaði Eygló með 116kg lyftu sem fór örugglega upp, þyngdi í 120kg sem hún tók einnig örugglega og var þá komin með nýtt íslandsmet í samanlögðu 222kg. Hún þyngdi að lokum í 123kg og negldi henni upp eins og öllum hinum lyftunum sínum og bætti þar sitt eigið Íslandsmet í jafnhendingu um 2 kg og 5 kg í samanlögðu eða 225kg frá því fyrir mótið.


Hún varð 4. í B riðli í jafnhendingu og 2. í samanlögðum árangri.
Magnaðar 6 öruggar lyftur í hús hjá okkar konu og magnaður árangur á stóra sviðinu í Riyadh.
Alls eru 56 keppendur í 71kg flokknum í 5 riðlum og keppir Eygló eins og áður sagði í B riðli.
Endanleg úrslit ráðast þegar þær 10 konur sem keppa í A riðli kl. 19:00 (16:00 á íslenskum tíma) hafa lokið keppni svo vænta má úrslita um kl. 18:00
Fylgjast má með keppni í A riðli hér
Uppfært:
Alls mættu 53 þátttakendur til keppni í 71kg flokkinum 42 náðu samanlögðum árangri.
Eygló hafnaði í 16. sæti í snörun, 21. sæti í jafnhendingu og 17. sæti samanlagt.
Úrslitin má finna hér
Þann 9. September kepptu Amalía Ósk Sigurðardóttir og Katla Björk Ketilsdóttir í 64kg flokki.
Í flokknum voru 45 keppendur og 38 sem náðu samanlögðum tölum.
Amalía hafnaði í 30. sæti og Katla í því 31. þegar allir riðlar höfðu lokið keppni
Myndir: Isaac Morillas Sanchez @World Weightlifting Media