Erla Ágústsdóttir er gerði lokakaflann á Evrópumeistaramótinu í Búkarest svo sannarlega eftirminnilega með því að taka 2 brons með heim af keppnispallinum í dag.

Hún hafnaði í 4. sæti í snörun með 88kg, aðeins einu kílói á eftir Luiza Sahradyan frá Armeníu. Erla opnaði með öruggri 88kg lyftu, þyngdi því næst í 92kg sem er jafnt hennar besta árangri en missti því miður stöngina yfir sig. Hún tók svo aftur 92kg og var sorglega nálægt því að halda henni en aftur fór stöngin yfir hana.

Erla kom svo sterk inn í jafnhendinguna, opnaði með 108kg. Hún tók létt og öruggt clean, en smá ójafnvægi var í jerkinu, en Erla dansaði með stöngina og stóð það allt saman af sér og var með gilda lyftu. Hún þyngdi þá í 113kg sem er jöfnun á hennar besta árangri og náði þar einnig gildri lyftu. Síðasta lyftan var 115kg og tilraun til Íslandsmets í U23. Mjög sterkt og öruggt clean og stóð upp eins og hún væri með tóma stöng, en jerkið vildi því miður ekki alla leið.

Niðurstaða engu að síður 4. sæti í snörun, 3. sæti í jafnhendingu og 3.sæti í samanlögðu.
Sahrah Fischer frá Austurríki sigraði flokkinn mjög örugglega með 240kg samanlagt og Meri Tumasyan frá Armeníu var í öðru sæti með 208kg samanlagt.


Það klingir fallega í medalíunum um hálsin á henni í dag og við Íslendingar meigum svo sannarlega vera stolt af þessari frábæru íþróttakonu sem fann sig fyrst í íþrótt þegar hún fann lyftingar og hér á hún svo sannarlega heima. Innilega til hamingju elsku Erla.


Mótinu lýkur í dag og erum við virkilega stolt af þessum flotta hópi íþróttafólks og starfsfólks.
Sérstaka þakki fær Isaac Morillas Sanchez hjá World Weightlifting Media fyrir frábærar myndir af keppendunum okkar á mótinu.