Rauður dagur og reynsla í bankann hjá stelpunum í 64kg flokki á EM U20 og U23

Dagurinn gekk ekki alveg að óskum hjá Íslensku stelpunum í dag. 64kg B hóparnir í U20 og U23 voru sameinaðir í einn hóp, svo Íslenski hópurinn stóð frammi fyrir því að eiga 3 keppendur í sama hópi. Það voru því allar tiltækar hendur fengnar með á keppnissvæðið, Brynjar Logi og Alex Nói fóru í hlutverk aðstoðarþjálfara á meðan Ingi Gunnar stjórnaði ferðinni af sinni alkunnu snilld. Við erum líka svo heppin að eiga góða vini og
Patric Bettembourg frá Svíþjóð kom okkur einnig til aðstoðar, en hann hefur tvisvar komið til Íslands með Sænskar stelpur og æft hjá okkur og kunnum við honum bestu þakkir fyrir aðstoðina.
Bæði U20 og U23 flokkarnir er svo með A hópana síðar í dag og eru 10 keppendur í hvorum fyrir sig.

Keppnin hófst kl. 9:00 hér í Búkarest, eða kl. 6:00 á Íslenskum tíma. Þetta þýddi að stelpurnar þurftu að mæta í vigtun kl. 4:00 á Íslenskum tíma og vakna til að fara í rútu vel fyrir 3:00, svo það má kannski segja að þær hafi verið að lyfta um miðja nótt og er þetta eitthvað sem við getum búist við þegar við förum austur á bóginn í keppnir og er hluti af lærdóm og reynslu.
Fyrir Arey og Snædísi er þetta fyrsta alþjóðlega mótið erlendis og er þetta því gríðarlega mikilvæg reynsla fyrir þær. 

Arey átti fyrstu lyftuna af Íslensku stelpunum og snaraði fallegri öruggri 72kg lyftu. Hún reyndi þar næst við 74kg í annarri lyftu en komst ekki alveg undir stöngina. Í þriðju snöruninni sem einnig var 74kg fann hún ekki alveg jafnvægið og missti stöngina aftur fyrir sig svo einungis fyrsta lyftan var gild.

Isaac Morillas @ https://www.instagram.com/w_weightlifting_media/

Snædis náði því miður ekki gildum snörunum. Fyrsta lyftan var þó ansi nálægt. Hún fékk tvö hvít og eitt rautt frá dómurunum, en kviðdómur snéri því við vegna “pressout”. Hún hækkaði svo í 75 í annarri og þriðju lyftu en komst því miður ekki undir stöngina.

Isaac Morillas @ https://www.instagram.com/w_weightlifting_media/

Úlfhildur opnaði í 74kg snörun en misti stöngina afturfyrir sig. Hún hækkaði sig í 75kg í næstu lyftu og var sorglega nálægt því að ná henni en náði ekki alveg að halda stönginni. Hún fór þá aftur í 75kg en missti hana aftur fyrir sig. Úlfhildur er reynsluboltinn af þeim þremur, en eins og hún sagði sjálf þá er þetta ný reynsla að bomba út…. en það er ágætt að prófa það líka einhverntíman.

Isaac Morillas @ https://www.instagram.com/w_weightlifting_media/

Í jafnhendingunni hóf Snædís leikinn og tók 83kg jafnhendingu. Hún hækkaði þá í 88kg, átti gott clean en jerkið gekk ekki að þessu sinni. Hún hækkaði svo í 91kg í sinni síðustu tilraun en hún fór því miður á sömu leið og 88kg. Snædís átti því aðeins eina gilda lyftu, en mikið af reynslu í bankann og kemur eflaust enn sterkari inn á næsta móti.

Isaac Morillas @ https://www.instagram.com/w_weightlifting_media/

Úlfhildur hóf sína fyrstu jafnhendingu á öruggri 84kg lyftu, hækkaði sig svo í 92kg, en líklega hefur stöngin eitthvað lent illa á henni í clean því hún náði ekki að standa upp. Í þriðju lyftunni tók hún 92kg aftur, stóð auðveldlega upp með það og endaði mótið með neglu jerki.

Isaac Morillas @ https://www.instagram.com/w_weightlifting_media/

Arey átti góða 90 kg lyftu í sinni fyrstu tilraun. Hún hækkaði svo í 93kg, og tók gott clean og stóð upp en komst ekki alveg undir jerkið. Hún reyndi svo aftur við 93kg en sama sagan endurtók sig.

Isaac Morillas @ https://www.instagram.com/w_weightlifting_media/

Svo… hellingur af reynslu í bankann og að takast á við allskonar aðstæður á keppnisstað. Það er erfitt að vera svona margar í sama hópnum og reyna að láta það ekki hafa áhrif á sig hvernig hinum gengur. Einnig var hópurinn í heild mjög nálægt hver annarri í þyngdum svo það var mikið að gerast að stigaborðinu og breytingar á röðun keppanda. En þannig er þessi íþrótt og við lærum af reynslunni og höldum ótrauð áfram.

Færðu inn athugasemd