Á morgun 25. júlí hefst Evrópumeistaramót Junior (U20) og U23 í Búkarest, Rúmeníu.
Opnunarhátíðin hefst kl. 17:30 ( 14:30 á Íslenskum tíma) og er allri keppninni streymt á vefsjónvarpi Evrópska lyftingasambandsins. www.ewfsport.tv
Upplýsingar og tímaseðil (startbook) er að finna á heimasíðu EWF

Ísland á 5 keppendur á mótinu og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með þeim.
Úlfhildur Arna Unnarsdóttir keppir í Junior 64kg flokki 29. júlí kl. 9:00 (6:00 á Íslenskum tíma).
Arey Rakel Guðnadóttir keppir í U23 64kg flokki 29. júlí kl. 9:00 (6:00 á Íslenskum tíma).
Snædís Líf P. Dison keppir í U23 64kg flokki 29. júlí kl. 9:00 (6:00 á Íslenskum tíma).
Brynjar Logi Halldórsson keppir í U23 89kg flokki 31. júlí kl. 17:00 (14:00 á Íslenskum tíma)
Erla Ágústsdóttir keppir í U23 +87kg flokki 3. ágúst kl. 13:00 (10:00 á Íslenskum tíma)




En kynnumst keppendunum aðeins betur…
Úlfhildur Arna Unnarsdóttir
Úlfhildur Arna er ein efnilegasta lyftingakona sem við Íslendingar eigum. Á síðasta ári landaði hún öðru sæti á Evrópumeistaramóti U17 í 71kg flokki og varð með því fyrsta Íslenska konan til að vinna til verðlauna á alþjóðamóti í lyftingum. Hún keppti fyrst árið 2017 og hefur alls keppt á 28 mótum og landað fjölmörgum Íslandsmetum og Íslandsmeistaratitlum. Hún var stigahæsta ungmenni (U17) ársins í kvennaflokki árið 2022.
Hennar besti árangur eru 87kg í snörun sem hún náði á Haustmótinum 2022, 106kg í jafnhendingu sem hún náði á Smáþjóðaleikunum 2022 og 190kg samanlagt á Haustmótinu. Úlfhildur hefur undanfarið oftast keppt í 71kg flokki en hún útskýrir sjálf hér fyrir neðan hvers vegna hún fór niður um flokk.

Hún keppir á Evrópumeistaramóti Junior (U20) í 64 kg flokki 29. júlí kl. 9:00 í Búkarest (kl. 6:00 á Íslenskum tíma).
Útsending á https://ewfsport.tv/
Hvenær byrjaðir þú að æfa lyftingar?
2017
Hvers vegna fórstu að æfa lyftingar?
Ég fann oly í gegnum crossfit þegar eg byrjaði í því 2017
Stundaðir þú aðra íþrótt/íþróttir áður en þú fórst í lyftingar?
Hverjar og hver eru helstu afrekin þín þar?
Ég var í áhaldafimleikum í Stjörnunni.
Varð íslandsmeistari á stökki ásamt öðrum medalíum, man ekki nákvæmlega.
Hver eru þín stærstu afrek í lyftingum hingað til?
Annað sæti á Em, yngsti Íslendingur til að vinna medalíu á stórmóti.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lyftingum og hvers vegna?
Ég horfi upp til margra og á mína uppáhalds lyftara, en ég myndi kannski ekki segja að þau væru fyrirmyndir. Það sem virkar fyrir mig er að vera ekki að bera mig saman við aðra eða reyna að vera eins og aðrir, því mitt eina markmið er að verða besta útgáfan af sjálfri mér.
Hvað myndir þú segja við unga lyftara sem eru að byrja í lyftingum og þú værir helsta fyrirmynd þeirra?
Ekki flýta þér og ekki bera þig saman við aðra. Fókusaðu á að ná tækninni áður en þú ferð í þyndir, það mun skila sér á endanum. þú veist aldrei hvað aðrir eru að ganga í gegnum eða hvernig þeirra líf lítur út, þínar bætingar gerast á þínum hraða. gerðu þitt besta og hafðu gaman 🙂
Annað sem þig langar að komi fram…
Þetta ár hefur verið frekar erfitt þegar það kemur að æfingum. Í lok skólaárs var ég í tvöföldu námi til að vinna upp það sem ég missti af þegar ég bjó í svíþjóð og hafði lítinn tíma til að æfa. Ég lenti einnig í veikindum sem höfðu mikil áhrif. Eftir það ætlaði ég að ná mér til baka en byrjaði á Decutan. Eins og margir þekkja getur lyfið valdið miklum aukaverkunum sem ég hef verið að glíma við síðustu vikur. Lystarleysi og liðverkir hafa verið verstir fyrir mig og virkilega haft áhrif á æfingar. Ég er ekki á sama stað og ég var á og bætingar ganga hægt, en það er bara þannig. Ég mæti ennþá á æfingar og geri það sem ég get og ég veit að ég mun koma sterkari til baka!
Arey Rakel Guðnadóttir
Arey keppti fyrst í lyftingum árið 2018 á Jólamótinu. Hún hefur keppt á 9 mótum sem skráð eru í gagnagrunn LSÍ, mörgum þeirra í Danmörku þar sem hún er búsett vegna náms.
Hennar besti árangur eru 77kg snörun, 95kg jafnhending og 172kg samanlagt og allt lyftur frá Danska Meistaramótinu 2023.

Arey keppir á Evrópumeistaramóti U23 í 64kg flokki 29. júlí kl. 9:00 í Búkarest (kl. 6:00 á Íslenskum tíma).
Útsending á https://ewfsport.tv/
Hvenær byrjaðir þú að æfa lyftingar?
Byrjaði í október 2021
Hvers vegna fórstu að æfa lyftingar?
Ég var búin að vera í crossfit í rúm 4 ár og fékk að heyra að ég ætti séns á því að vera góð í oly og svo var cardio orðið soldið þreytt. Svo ákvað að byrja og sjá hversu langt ég gæti komist.
Stundaðir þú aðra íþrótt/íþróttir áður en þú fórst í lyftingar?
Hverjar og hver eru helstu afrekin þín þar?
Var fyrst í sundi í ca 8-9 ár og á enn nokkur félagsmet í mínum aldursflokki á þeim tíma en fór svo í CrossFit eftir að hafa hætt vegna meiðsla í sundinu.
Hver er uppáhalds (eftirminnilegasta) lyftan þín á ferlinum og hvers vegna?
Eftirminnanlegast er að jerka 100kg í fyrsta sinn á æfingu í fyrra, þá sá ég að það væri raunhæfur möguleiki að elta 100kg c&j drauminn.
Hver eru þín stærstu afrek í lyftingum hingað til?
Ég keppti á NM U20 og lenti í þriðja sæti þar, einnig 3. sæti í bæði snatchi og c&j á Danska senior meistaramótinu, en svo finnst mér nokkuð stórt og óraunverulegt að vera á leið á EM U23.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lyftingum og hvers vegna?
Núna fylgist ég mikið með Solfrid Koanda og finnst hún góð fyrirmynd í íþróttinni. En ég byrjaði fyrst og fremst eftir að hafa þekkt Birtu Líf lengi, hún hvatti mig í að keppa í fyrstu skiptin og að sjá að hún gæti lyft þessu og hinu hvatti mig í að reyna lika.
Hvað myndir þú segja við unga lyftara sem eru að byrja í lyftingum og þú værir helsta fyrirmynd þeirra?
Treysta ferlinu, það koma hindranir en bara vera þolinmóður og leggja inn vinnuna þá koma góðu stundirnar og afrekin á endanum.
Annað sem þig langar að komi fram…
Vil bara þakka þér Erna líka fyrir að hvetja mig í Óly 2020 og þetta góða utanumhald og starf í LSÍ👏🏼👏🏼
Snædís Líf P. Dison
Snædís á frekar stuttan feril í lyftingum hingað til en hún keppti fyrst fyrir aðeins rúmum 2 árum á Sumarmóti og má það því teljast frábær árangur að vera komin á Evrópumeistaramót U23 eftir einungis 6 mót.
Hennar besti árangur er 77kg snörun frá Íslandsmóti ungmenna 2023, 90kg jafnhending frá Íslandsmóti Senior 2023 og samanlagt 167kg frá Íslandsmóti Ungmenna 2023.

Snædís keppir á Evrópumeistaramóti U23 í 64kg flokki 29. júlí kl. 9:00 í Búkarest (kl. 6:00 á Íslenskum tíma).
Útsending á https://ewfsport.tv/
Hvenær byrjaðir þú að æfa lyftingar?
Svona þegar ég var að undirbúa mig fyrir fyrsta mótið árið 2021. Annars bara að lyfta samhliða crossfit.
Hvers vegna fórstu að æfa lyftingar?
Byrjaði í crossfit af því að frændi minn sagði að ég þyrfti að vera sterk til að geta eitthvað á skíðum. Svo þróaðist það þannig að mér fannst lyftingar skemmtilegast við crossfit og var frekar fljót að bæta mig mikið.
Stundaðir þú aðra íþrótt/íþróttir áður en þú fórst í lyftingar?
Hverjar og hver eru helstu afrekin þín þar?
Æfði fimleika og fótbolta sem barn og skíði þangað til 2020. Engin mikil afrek þar.
Hver er uppáhalds (eftirminnilegasta) lyftan þín á ferlinum og hvers vegna?
Líklega 90kg C&J á Íslandsmeistaramótinu sem tryggði mér sætið inn á EM. Það var lyfta sem ég bara þurfti að ná.
Hver eru þín stærstu afrek í lyftingum hingað til?
Komast inn á EM U23. Átti keppnisdag þar sem allt gekk upp eftir erfiðar æfingavikur fram að móti.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lyftingum og hvers vegna?
Ég elska ítölsku stelpurnar!
Hvað myndir þú segja við unga lyftara sem eru að byrja í lyftingum og þú værir helsta fyrirmynd þeirra?
Settu þér stór markmið
Brynjar Logi Halldórsson
Brynjar Logi er einn sterkasti lyftari landsins í dag en hann hefur klifrað hratt upp getustigann síðan hann keppti fyrst á Sumarmótinu 2020. Hann á m.a. að baki Norðulandameistaratitla í U20, 2020 og 2022 auk þess sem hann hefur sett fjölmörg Íslandsmet í Senior, U23 og Junior flokkum bæði í 81kg og 89kg flokki. Hann á þó verðuga keppinauta í 89kg flokkinum og verður gaman að sjá baráttuna um lyftingamann ársins þetta árið, en Brynjar hlaut þann titil árið 2022 bæði í Senior og U20. Það mun vera í fyrsta sinn sem lyftingamaður ársins er U20 lyftari.
Besti árangur Brynjars er 138kg snörun frá Sumarmótinu 2023, 158kg jafnhending og samanlögð 295kg frá Norðurlandamóti Junior 2022.

Brynjar keppir á Evrópumeistaramóti U23 í 89kg flokki 31. júlí kl. 17:00 í Búkarest (kl. 14:00 á Íslenskum tíma).
Útsending á https://ewfsport.tv/
Hvenær byrjaðir þú að æfa lyftingar?
Nóvember 2019
Hvers vegna fórstu að æfa lyftingar?
Ég sá lyftingar á youtube og fannst þetta spennandi.
Stundaðir þú aðra íþrótt/íþróttir áður en þú fórst í lyftingar?
Hverjar og hver eru helstu afrekin þín þar?
Ég var í Taekwondo í 10 ár og er með Svarta beltið. Ég á marga íslandsmeistaratiltla, en stærsta afrekið er 3. sæti á Canada open 2017.
Hver er uppáhalds (eftirminnilegasta) lyftan þín á ferlinum og hvers vegna?
151 C&J á Junior Norðurlandamóti í Noregi 2021 í -81kg flokki. Hún var 6kg PR og eftir hana átti ég öll Íslandsmetin í -81kg flokki í Senior. Eftir það fór ég heim að borða og verða stór og sterkur og hef keppt í -89kg flokki síðan.
Hver eru þín stærstu afrek í lyftingum hingað til?
Var lyftingamaður ársins 2022
Hver er þín helsta fyrirmynd í lyftingum og hvers vegna?
Það er enginn einn ákveðinn en ég horfi mikið á lyftingar og velti fyrir mér mismunandi lyfturum og stílum í lyftingum.
Hvað myndir þú segja við unga lyftara sem eru að byrja í lyftingum og þú værir helsta fyrirmynd þeirra?
Þú þarft að vinna vinnuna og þá koma bætingarnar. Mæta æfingar, borða mat og sofa á nóttunni. Það er ekki nóg að gera bara Snatch – þú þarft að hugsa um hvað þú ert að gera og pæla í tækninni þinni alltaf. Hafa intention í æfingunum alltaf.
Erla Ágústsdóttir
Erla keppti fyrst á Haustmótinu 2021 en hefur síðan orðið Íslandsmeistari unglinga 2021, Norðurlandameistari unglinga 2021 og Íslandsmeistari Senior 2023. Hún á öll Íslandsmet í Junior og U23 flokki í +87kg flokki. Hún hefur keppt á alls 9 mótum hingað til.
Besti árangur Erlu er 92kg snörun, 113kg jafnhending og 205kg samanlagt frá Sumarmótinu 2023.

Erla keppir á Evrópumeistaramóti U23 í +87kg flokki 3. ágúst kl. 13:00 í Búkarest (kl. 10:00 á Íslenskum tíma).
Útsending á https://ewfsport.tv/
Hvenær byrjaðir þú að æfa lyftingar?
Sumarið 2021 fór ég að einbeita mér einungis að lyftingum.
Hvers vegna fórstu að æfa lyftingar?
Ég tók grunnámskeið í crossfit í byrjun 2019 og kynnist ólympískum lyftingum í kjölfarið, fann fljótt að lyftingarnar voru það sem mér fannst skemmtilegast og styrkleikarnir mínir lágu klárlega í þeim heldur en í crossfit. Ég hélt samt áfram í crossfit en með áherslu á lyftingar þar til sumarið 2021 þegar ég tek ákvörðun um að keppa í fyrsta skipti á haustmóti LSÍ 2021 þá færi ég mig yfir í lyftingar.
Stundaðir þú aðra íþrótt/íþróttir áður en þú fórst í lyftingar?
Hverjar og hver eru helstu afrekin þín þar?
Nei, fann mig aldrei í neinni íþrótt
Hver er uppáhalds (eftirminnilegasta) lyftan þín á ferlinum og hvers vegna?
90kg snatch á ÍM 2023, þetta var tala sem mér var búið að langa í svo lengi, mjög gaman að ná henni á pallinum.
Hver eru þín stærstu afrek í lyftingum hingað til?
Að vera með næst hæsta total sem íslensk stelpa hefur átt (vonandi er það rétt hjá mér), það er klikkað að hugsa til þess.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lyftingum og hvers vegna?
Norska Solfrid Koanda, hún er ríkjandi heimsmeistari og hefur verið mjög stutt í íþróttinni miðað við árangur. Hún er mjög sterk og er að taka þyngdir sem maður getur ekki ímyndað sér en alltaf hægt að líta upp til hennar og vinna að því að verða sterkari og komast nær því sem hún er að taka.
Hvað myndir þú segja við unga lyftara sem eru að byrja í lyftingum og þú værir helsta fyrirmynd þeirra?
Njóta þess að æfa, þora að keppa, leyfa þér að stefna hátt og hafa gaman að þessu sporti!
Lyftingasambandið er virkilega stolt af þessum flotta hópi keppenda og óskar þeim alls hins besta á mótinu.