Metaregn og magnaðar lyftur á Sumarmóti

Í dag fór sumarmót Lyftingasambands Íslands og Lyftingadeildar KA fram í KA heimilinu á Akureyri. Mótið heppnaðist mjög vel og eiga KA menn hrós skilið fyrir góða umgjörð og skipulag.

Mótið var sinclair-stigamót m.v. 2020-2024 sinclair-reiknireglu, en hún er ekki að fullu sambærileg við þau stig sem gefin eru upp á results.lsi.is

13 konur í tveimur riðlum og 7 karlar í einum riðli kepptu í dag.
Heildarúrslit má finna á https://results.lsi.is/meet/sumarmot-lsi-2023

Amalía Ósk Sigurðardóttir sigraði  í kvennaflokki með 230,51 sinclair stig.
Erla Ágústsdóttir var í öðru sæti með 211,91 sinclair stig.
Telma Rún Guðjónsdóttir var í þriðja sæti með 195,67 sinclair stig.

Hjá körlunum var hörð og spennandi keppni
Sigurður Darri Rafnsson sigraði með 361,41 sinclair stig.
Brynjar Logi Halldórsson var í öðru sæti með 359,22 sinclair stig.
Axel Guðni Sigurðsson var í þriðja sæti með 345,73 sinclair stig.

Það var virkilega gaman að sjá Amalíu koma svona sterka til baka en töluvert er síðan hún keppti síðast. Amalía opnaði með 70 kg snörun, missti 75 kg sem hún svo tók í þriðju tilraun. Í C&J lyfti hún 90 kg – 95 kg  og 100 kg, svo 175 kg total var niðurstaðan í dag. Hún stefnir ótrauð á Senior Heimsmeistaramót í September og það verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni.

Erla Ágústsdóttir átti frábæran dag en hún lyfti 88 kg í sinni fyrstu snörun, tók síðan 92 kg í annarri tilraun og setti með því U23 Íslandsmet og reyndi að lokum við 94 kg sem ekki vildu upp í dag, en það hefði verið jöfnun á Senior Íslandsmets standard. 
Í C&J tók hún 108 kg í fyrstu tilraun, í annarri tók hún 113 kg sem er U23 Íslandsmet og líkt og í snöruninni reyndi hún að jafna Senior Íslandsmets-standardinn og bað um 116 kg sem gengu því miður ekki. Niðurstaðan er samanlögð 205 kg sem gefa henni A lágmörk á NM Senior, B lágmörk á EM U23 og C lágmörk á EM Senior. Það má því segja að þessi frábæra lyftingakona hafi með þessu stimplað sig rækilega inn í landsliðið í dag.

Í karlaflokki voru tveir lyftarar fæddir 2007 að keppa á sínu fyrsta móti. Annar þeirra, Kristinn Þór Hilmarsson, vigtaðist inn í 67 kg flokk, átti gott mót og lyfti 6 gildum lyftum sem er alltaf frábært á fyrsta móti.

Mótið endaði svo á æsispennandi keppni en þrír gríðarsterkir keppendur vigtuðust allir inn í -89 kg flokk og tilkynntu svipaðar tölur í vigtun. Þeir voru þrír eftir þegar hinir fjórir keppendurnir höfðu lokið keppni.
Í snörun hóf svo Sigurður Darri Rafnsson leikinn með 125 kg snörun og Axel Guðni Sigurðsson lék svo þann leik á eftir honum. Axel fór því næst í 128 kg tilraun sem ekki vildi upp en hækkaði í 130 kg líkt og Sigurður hafði gert. Brynjar Logi Halldórsson hafði þá hækkað sig upp í 133 kg, svo næst átti Sigurðuri Darri leik og lyfti 130 kg og aftur lék Axel það sama á eftir honum. 

Þá var komið að Brynjari að opna með 133 kg sem fóru upp.  Sigurður Darri tók svo einnig 133 kg í sinni þriðju tilraun. Brynar Logi stóð þá einn eftir með tvær tilraunir uppi í erminni. Tók fallega 136 kg snörun í annarri tilraun og að lokum 138 kg snörun sem jafnframt er Senior Íslandsmet.

Spennan magnaðist svo þegar kom að jafnhendingarhlutanum. Þar hóf Axel leikinn hjá þeim þremur með 152 kg góðri lyftu, en náði svo því miður ekki annarri og þriðju tilraun upp í dag. Þá reyndi Brynjar við 155 kg en eitthvað lenti stöngin illa á honum og hann náði ekki að standa upp með stöngina. Sigurður Darri tók þá 155 kg í sinni fyrstu tilraun. Brynjar náði svo 155 kg í annarri tilraun. Hann hækkaði svo beint í 162 kg og Sigurður Darri fylgdi á eftir, en þar sem hann var á sinni annarri tilraun var það hann sem fyrst mætti á pallinn og henti upp nýju 162kg Íslandsmeti í C&J. Þá hækkaði Brynjar í 163 kg, stóð upp með það, en jerkið vildi ekki upp í dag.
Að endingu setti Sigurður Darri allt sitt í síðustu lyftuna 164 kg sem fóru upp við mikinn fjögnuð viðstaddra og hans sjálfs og  bætti þar sitt eigið Íslandsmet í jafnhendingu og einnig samalagða Íslandsmetið um 2 kg eða samtals 297kg.  Með þessu er hann einnig kominn með C lágmörk á Senior HM, B lágmörk á Senior EM og A lágmörk á Senior NM.
Það má því með sanni segja að hann hafi verið maður dagsins í dag.

Að lokum er gaman að geta þess að tveir einstaklingar þau Heiðrún Frímannsdóttir og
Snorri Arnaldsson þreyttu dómarapróf á mótinu.

Við þökkum Lyftingadeild KA fyrir frábært mót, framúrskarandi útsendingu og gott skipulag.

Myndir: Egill Bjarni Friðjónsson

Færðu inn athugasemd