Í dag keppti Þuríður Erla Helgadóttir á Senior Evrópumeistaramóti í Yerevan í Armeníu.
Hún keppti í -59kg flokki ásamt 22 öðrum keppendum og hafnaði í 13. sæti í samanlögðum árangri, en 14. sæti bæði í snörun og jafnhendingu.

Hún keppti í B-hóp og átti fyrstu lyftu hópsins þegar hún opnaði með 79 kg snörun. Í annarri tilraun lyfti hún 82 kg og reyndi svo í 3. tilraun við 84 kg sem fóru upp, en hún missti svo því miður aftur fyrir sig. Niðurstaðan varð 4. sætið í B hóp í snörun og 14. sætið í heildina.

Í jafnhendingu opnaði Þuríður með 100 kg, tók 102 kg í annarri tilraun sem hún fékk dæmda ógilda. Ingi Gunnar, þjálfari dró þá upp “challenge card” en kviðdómur hélt sig við að lyftan væri ógild eftir að hafa skoðað upptökur. Þuríður lét þetta ekki á sig fá, bætti 2 kg til viðbótar á stöngina og tók 104 kg í síðustu tilraun mjög örugglega og var það í raun besta lyftan hennar í jafnhendingu. Niðurstaðan því 4. sætið í B-hóp og 14. sætið í heild í jafnhendingu.

Í samanlögðum árangri lyfti hún 186 kg og hafnaði í 13. sæti í flokknum í heild.

Innilega til hamingju með árangurinn Þurí.