Lyftingafólk ársins 2021

Val á lyftingafólki ársins fór fram í Desember, einnig velur sambandið ungmenni ársins í flokki 18-20 ára, 16-17 ára og 15 ára og yngri. Afhending farandbikara mun eiga sér stað á næstu vikum. Sérstaka athygli má vekja á gríðarlega góðum árangri ungmenna sambandsins á árinu 2021.

Valið er samkvæmt 18. Grein í lögum LSÍ.

18. grein,
Stjórn og varamenn hafa atkvæðisrétt um val á lyftingakonu og karli ársins, valið skal ávallt miðast við tímabilið 1. Desember til 30. Nóvember. Ef óskað er eftir því getur kosning verið nafnlaus. Val á lyftingakonu og karli ársins skal miðast við árangur íþróttamannsins á liðnu ári og er þá sérstaklega horft til Sinclair stigatölu sem og árangur á alþjóðlegum mótum. Íþróttamenn koma ekki til greina í vali á lyftingakonu og karli ársins á meðan þeir taka út refsingu og í eitt ár eftir að refsingu lýkur vegna brota á lyfjalögum ÍSÍ, IWF og/eða WADA.

Besta Lyftingakonan

Þuríður Erla á EM Í Moskvu Apríl 2021

Þuríður Erla Helgadóttir LFK (f. 1991) náði besta árangri íslenskrar konu á árinu á Evrópumeistaramóti Senior (fullorðinna) í Moskvu í Apríl en þar lenti hún í 9. Sæti sem er besti árangur sem íslensk kona hefur náð á Evrópumeistaramóti. Mótið var loka úrtökumót fyrir ólympíuleikana í Tokyo sem gerði það enn sterkara. Á mótinu náði hún 83 kg í snörun, 108 kg í jafnhendingu sem gaf henni 191 kg í samanlögðum árangri og 263,2 Sinclair stig sem er besti árangur Þuríðar á móti síðan 2017 og næst besti árangur hennar frá upphafi. Þuríður keppir í -59 kg flokki kvenna og á öll íslandsmet í þeim flokki en þau eru 87 kg í snörun sem hún setti árið 2019 á EM í Georgíu, 108 kg í jafnhendingu og 191 kg í samanlögðu sem hún setti á EM í Moskvu í ár eins og áður sagði. Þuríður keppti aðeins á einu móti á árinu 2021 en hún hefur verið búsett í Sviss undanfarin á og covid-19 takmarkanir settu strik í reikninginn varðandi fjölda móta. Þetta er sjöunda árið í röð sem Þuríður er valin lyftingakona ársins. 

Besti Lyftingamaður

Arnór Gauti 2. frá vinstri á HM Í Uzbekistan

Arnór Gauti Haraldsson LFG (f. 1998) náði besta árangri íslenska karla á árinu á Reykjavík International Games sem haldnir voru í janúar og vann hann það mót. Á mótinu náði hann 136 kg í snörun sem er núgildandi íslandsmet í senior flokki sem og U23, 156 kg í jafnhendingu og 292 kg í samanlögðum árangri sem færði honum 346 Sinclair stig. Í Senior flokki á hann 136 kg í snörun eftir RIG 2021 og 294 kg eftir Sumarmótið 2020. Árangur Arnórs á RIG færði honum keppnisrétt á Heimsmeistaramótinu sem haldið var í Úsbekistan um miðjan Desember og var fyrsta stórmótið sem Arnór fór á í ólympískum lyftingum þar endaði hann í 24.sæti í -89kg flokki karla. Þetta er annað árið í röð sem Arnór hlýtur nafnbótina Lyftingamaður ársins.

Ungmenni ársins 2021

Stúlkur U20 (18-20 ára)

Eygló Fanndal Sturludóttir á HM í Uzbekistan með 92kg í snörun

Eygló Fanndal Sturludóttir LFR [f.2001] hefur líkt keppt oft og víða á árinu alls átta sinnum og þar af fjórum sinnum erlendis allt í mismunandi löndum. Hún náði sínum besta árangri á tímabilinu 1.Des 2020 til 30. Nóvember 2021 á Evrópumeistaramóti Unglinga 20 ára og yngri í Rovaniemi Finnlandi þar sem hún endaði í 6.sæti í -71kg flokki og lyfti 89kg í snörun og 108kg í jafnhendingu. Samanlagður árangur þar var 197kg eða 247.4 Sinclair stig, gríðarlega hörð keppni var í flokknum en silfurverðlaunahafinn lyfti 201kg, brons 200kg, 4.sæti 199kg, og 5.sæti 198kg. Eygló bætti hinsvegar sinn besta árangur á árinu þegar hún lyfti 202kg á Heimsmeistaramóti fullorðinna í Tashkent í Uzbekistan 7.-17. Desember, 92kg í snörun og 110kg í jafnhendingu og sýndi með því að hún er með allra bestu ungmennum í Evrópu. Það er þyngsti samanlagði árangur sem íslensk kona hefur lyft á móti í ólympískum lyftingum. Í Desember 2021 setti hún einnig 6 ný norðurlandamet unglinga, fyrst á Jólamóti LSÍ 5.Desember þar sem hún setti nýtt met í snörun í -76kg flokki með 88kg og svo tvíbætti hún bæði jafnhendingarmetið með því að lyfta 105 og 108kg. Samanlagði árangurinn 193 og 195kg voru norðurlandamet. Loks var 92kg í snörun nýtt norðurlandamet unglinga (20 ára og yngri) í -71kg flokki.

Piltar U20 (18-20 ára)

Brynjar Logi á Evrópumeistaramóti Unglinga 20 ára og yngri 2021

Brynjar Logi Halldórsson LFR (f.2002) hefur verið á mikilli siglingu á árinu, hann keppti á sjö mótum á árinu þar af tveimur erlendis. Besta árangri náði hann á Norðurlandamóti unglinga þar sem hann lyfti 120kg í snörun og 151kg í jafnhendingu í -81kg flokki, 330.7 Sinclair stig. Jafnhendingin var nýtt íslandsmet í fullorðinsflokki og einnig samanlögðum árangri. Á EM U20 ára lyfti hann 115kg í snörun og 143kg í jafnhendingu í -81kg flokki og endaði í 17 sæti á sínu fyrsta stórmóti.

Meyjar U17 (16-17 ára)

Úlfhildur á HM 17 ára og yngri í Jeddah (Saudi-Arabíu)

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir LFR (f.2005) fagnaði góðu gengi á árinu. Besta árangrinum á tímabilinu 1.Des 2020 til 30.Nóvember 2021 náði hún á Norðurlandamóti Unglinga 17 ára og yngri þar sem hún sigraði -71kg flokk kvenna og lyfti 83kg í snörun og 98kg í jafnhendingu, samanlagt 181kg og 222.8 Sinclair stig. Hún keppti einnig á Evrópumeistaramóti unglinga 17 ára og yngri í Póllandi þar sem hún endaði í 6.sæti í -71kg flokk og á HM unglinga 17 ára og yngri í Jeddah í Saudi Arabíu þar sem hún endaði í 9.sæti. Hún toppaði árið 5.Desember þegar hún varð sænskur unglingameistari 20 ára og yngri þegar hún lyfti 85kg í snörun og 100kg í jafnhendingu en Úlfhildur er búsett í Svíþjóð og því gjaldgeng sem keppandi á mótinu.

Sjá umfjöllun mbl um árangur Úlfhildar: https://www.mbl.is/sport/frettir/2021/11/27/gull_og_silfurregn_i_stavern/

Drengir U17 (16-17 ára)

Brynjar Ari á HM 17 ára og yngri í Jeddah (Saudi-Arabíu)

Brynjar Ari Magnússon LFR (f.2004) keppti á tveimur mótum á tímabilinu, norðurlandameistaramóti unglinga 2020 þar sem hann sigraði í flokki 17 ára og yngri í -89kg flokki með því að lyfta 118kg í snörun og 130kg í jafnhendingu (294 Sinclair stig) hann setti einnig íslandsmet 17 ára og yngri í snörun og samanlögðum árangri á mótinu. Hann keppti einnig á HM unglinga 17 ára og yngri í Jeddah í Saudi Arabiu í Október 2021 þar sem hann lyfti 110kg í snörun og 130kg í jafnhendingu og endaði í 12.sæti.

Drengir U15 (15 ára og yngri)

Bjarki Þórðason LFK (f.2006) náði bestum árangri drengja 15 ára og yngri, hann náði bestum árangri á Jólamóti LSÍ þegar hann lyfti 75kg í snörun og 105kg í jafnhendingu í, hann vigtaðist 86.15kg inn í mótið sem gaf honum 212.4 Sinclair stig.

Meyjar U15 (15 ára og yngri)

Bergrós Björnsdóttir UMFS (f.2007) náði frábærum árangri á Norðurlandamóti Unglinga 17 ára og yngri þar sem hún endaði í 2.sæti í -71kg flokki kvenna og lyfti 80kg í snörun og 97kg í jafnhendingu, 177kg samanlagt og 217.4 Sinclair stig. Með þessum árangri endaði hún í 11.sæti yfir stigahæstu íslensku konurnar á árinu 2021 af 61 keppanda og er það magnaður árangur miðað við aldur!

Færðu inn athugasemd