Katla Björk Ketilsdóttir UMFN keppti í dag fyrir hönd Íslands á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum 17 ára og yngri sem fram fer í Kósavó. Katla átti frábært mót og bætti sinn besta árangur um 12 kg í samanlögðum árangri sem tryggði henni 5.sæti af 13 keppendum í -63kg flokki aðeins 1kg á eftir keppandanum í fjórða sæti.
Katla hóf keppni á 72kg í snörun, því næst fór hún í 75kg sem hún klikkaði á en í lokatilraun fór hún í 77kg sem var tilraun við nýtt norðurlandamet í -63kg flokki kvenna 17 ára og yngri. Katla lyfti þeirri þyngd með glæsibrag og bætti þar með um ársgamalt met hinnar sænsku Ölvu Cederholm 76kg, 77kg hjá Kötlu var bæting á hennar eigin íslandsmeti um 4kg frá því fyrr í sumar.
Í jafnhendingunni þá byrjaði Katla á 82kg, því næst fór hún í 85kg og loks í 88kg, en bæði 85kg og 88kg voru ný íslandsmet, samanlagður árangur því 165kg.
Katla verður í eldlínunni í lok Október þegar 12 íslenskir keppendur fara á Norðurlandamót Unglinga 20 ára og yngri og 17 ára og yngri í Pori í Finnlandi.
—
Hægt er að sjá norðurlandametið hjá Kötlu frá mínútu 56:43 í útsendingu frá mótinu sem og aðrar lyftur: https://www.youtube.com/watch?v=0Q3C8Q6qb2c
—
Nánari útlistun á árangri Kötlu má sjá í gagnagrunni lyftingasambandsins: http://results.lsi.is/lifter/katla-bjork-ketilsdottir