Sumarmót LSÍ fór fram í húsakynnum og umsjón LFG/Crossfit XY, Laugardaginn 11.Júní. Heildarúrslit má nálgast í afreksgagnagrunni LSÍ: http://results.lsi.is/meet/sumarmot-lsi-2017
39 keppendur hófu keppni frá 9 lyftingafélögum og féllu fjölmörg met í unglingaflokkum og margar keppnisbætingar. Þetta var fyrsta mót af þremur í Liðabikar LSÍ 2017 og er staðan eftir fyrsta mót eftirfarandi:
| # | Félag | Stig | Stig á Sumarmóti |
|---|---|---|---|
| 1 | LFH | 45 | 7 + 7 + 5 + 5 + 5 + 4 + 4 + 3 + 2 + 2 + 1 |
| 2 | LFG | 37 | 7 + 7 + 7 + 5 + 5 + 4 + 2 |
| 3 | LFR | 35 | 7 + 7 + 7 + 4 + 3 + 3 + 2 + 2 |
| 4 | LFK | 20 | 7 + 5 + 5 + 3 |
| 5 | UMFN | 17 | 7 + 7 + 3 |
| 6 | LFM | 7 | 7 |
| 6 | KFA | 7 | 7 |
| 8 | Ármann | 5 | 5 |
| 9 | Hengill | 4 | 4 |
Í kvenna flokki sigraði Aníta Líf Aradóttir sem keppti í fyrsta sinn fyrir LFG á mótinu. Aníta átti frábært mót og lyfti 82kg í snörun (2kg bæting) og 108kg í jafnhendingu (8kg bæting !), með þessum árangri fer Aníta í 5.sæti á all-time Sinclair listanum yfir bestu lyftingakonur landsins með 241,7 stig. Hún mun án efa gera atlögu að Íslandsmeti Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttir 110kg í -69kg flokki kvenna á næstu mótum.
Önnur varð Viktoría Rós Guðmundsdóttir sem einnig hefur skipt um félag og keppir núna fyrir LFG. Viktoría keppir létt í -69kg flokki kvenna (64,95kg) og tók góðar bætingar í snörun 70kg (3kg bæting) og 96kg í jafnhendingu (4kg bæting). Þessi árangur gaf henni 213,6 Sinclair stig.
Þriðja sæti skipaði Álfrún Ýr Björnsdóttir LFH sem fylgdi eftir góðum árangri frá meistaramóti UMSK og lyfti 72kg í snörun og 98kg í jafnhendingu (2kg bæting). Þetta gaf henni 204,6 Sinclair stig um einu og hálfu stigi betur en Katla Björk Ketilsdóttir UMFN sem snaraði glæsileg met í -63kg flokki bæði U17 og U20 ára kvenna. Fyrst 71kg og síðan 73kg sem var 3kg keppnisbæting hjá Kötlu.
Hjá Körlunum var það Einar Ingi Jónsson LFR sem náði bestum árangri hann snaraði 116kg (4kg bæting) og jafnhenti 145kg (2kg bæting) og þetta gaf honum hæsta Sinclair sem hann hefur náð 339,07 stig. og fór hann með því upp Björgvin Karl Guðmundsson á allt-time Sinclair lista karla um 0,04 stig. Þetta voru einnig ný met í snörun, jafnhendingu og samanlögðum árangri í -77kg flokki karla 23 ára og yngri.
Í öðru sæti varð Ingólfur Þór Ævarsson KFA sem snaraði glæsilega 135kg (8kg bæting) og jafnhenti 165kg (1kg bæting). Ingólfur átti góðar tilraunir við 140kg í snörun og tvær við 172kg í jafnhendingu en náði ekki að klára þær lyftur. Ingólfur er greinilega í miklum bætingum og mögulega fer Íslandsmet Gísla Kristjánsonar í -105kg flokki karla, 175kg frá árinu 2003 að komast í færi. Ingólfur vigtaðist 110,75kg inn í mótið og fékk 321,5 Sinclair stig.
Þriðji varð Emil Ragnar Ægisson UMFN sem átti góða endurkomu í nýjum þyngdarflokk eftir erfið meiðsl. Emil snaraði 117kg (4kg bæting) og jafnhenti 147kg (5kg bæting). Þessi árangur tryggði Emil 315,7 stig.
—
Íslandsmet sem sett voru á mótinu voru eftirfarandi:
Rökkvi Guðnason LFR setti met í öllum flokkum bæði karla og unglingaflokkum í -56kg flokki þegar hann snaraði best 50kg og jafnhenti 62kg. Rökkvi var einnig yngsti keppandi mótsins aðeins 12 ára (f.2005).
Agnes Ísabella Guðmundsdóttir LFH setti met í öllum greinum í -53kg flokki 15 ára og yngri með 35kg í snörun og 40kg í jafnhendingu.
Katla Björk Ketilsdóttir UMFN snaraði ný met 70kg og 73kg í -63kg flokki kvenna U17 og U20 ára. Það gaf henni einnig met í samanlögðum árangri í sama flokk.
Brynjar Ari Magnússon LFH snaraði 68kg og 73kg sem voru ný met í -69kg flokki 15 ára og yngri.
Veigar Ágúst Hafþórsson LFH bætti Íslandsmetið í -94kg flokki karla 17 ára og yngri um 1kg þegar hann snaraði 97kg.
Einar Ingi Jónsson LFR setti ný met í öllum greinum í -77kg flokki karla 23 ára og yngri eins og áður sagði.