Jólamótið fór fram í Sporthúsinu síðastliðinn laugardag (17.des) í umsjón Lyftingafélags Kópavogs. Alls mættu 60 keppendur til leiks en þetta er fjölmennasta innanlandsmót sem LSÍ hefur haldið. Brugðið var á það ráð að keppa samtímis á tveimur pöllum og tókst það með ágætum. Gaman var að sjá hversu margir mættu til keppni og jafnframt hversu margir voru að stíga sín fyrstu skref á keppnisplallinum. Það voru 10 keppendur 15 ára og yngri og um helmingur keppenda var 20 ára og yngri.
Sannarlega skemmtilegur endir á keppnisárinu, en samtals kepptu 127 einstaklingar (68kk og 59kvk) á mótum á vegum LSÍ árið 2016.
Heildarúrslit má nálgast í afreksgagnagrunni sambandsins hér
Spennandi keppni var í mörgum flokkum og ágætur árangur náðist. Stigahæst kvenna varð Katla Björk Ketilsdóttur (UMFN), en hún snaraði 69kg og jafnhenti 82kg sem gáfu henni 214,6 sinclair stig. Þetta eru jafnframt Íslandsmet í 58kg flokki stúlkna (U17) og unglinga (U20). Önnur varð Birna Blöndal Sveinsdóttir (KFA) en hún bætti Íslandsmetin í 53kg flokki er hún snaraði 65kg og jafnhenti 75kg sem gáfu 211,8 sinclair stig. Hörð keppni var um þriðja sætið en það hreppti Birna Dís Ólafsdóttir (LFH) með 201,6 stig en skammt þar á eftir kom Hrund Scheving (Ármann) með 200,2 stig.
Stigahæstur karla varð Daníel Róbertsson (Ármann) en snaraði 112kg og jafnhenti 142kg, 79,25kg að líkamsþyngd, sem gáfu honum 314,8 sinclair stig. Annar varð Ingólfur Þór Ævarsson (KFA) en snaraði 125kg og jafnhenti 163kg sem gáfu 310,1 stig og voru jafnframt þyngstu lyftur mótsins. Gífurlega hörð barátta var um bronsverðlaunin þar sem 0,2 stig skildu að 3. og 4. sætið og 0,8 stig 3.-5.sæti. Það fór þó svo að bronsið féll í skaut Davíð Björnssyni (Ármann) en hann snaraði 108kg og jafnhenti 140kg sem gáfu 306,8 sinclair stig. Fjórði varð Árni Freyr Bjarnason (Ármann) með 306,6 stig og fimmti Birkir Örn Jónsson (KFA) með 306,0 stig.
Fjöldi meta féll á mótinu. Auk þess að Birna Blöndal Sveinsdóttir (KFA) bætti öll Íslandsmetin í 53kg flokki kvenna eins og áður hefur fram komið þá lyfti Birna Dís Ólafsdóttir einnig yfir gömlu metunum í jafnhendingu og samanlögðu sem hún átti sjálf. Þá var árangur Kötlu Bjarkar (UMFN) Íslandsmet í 58kg flokki í U17, U20 og U23 og Hrundar Scheving (Ármann) í flokki 35-39 ára í 75kg. Elín Rósa Magnúsdóttir (LFK) setti met í 63kg flokki og Einar Ísberg (Hengill) í 56kg flokki í öllum greinum í U15. Þá setti Jón Kaldalóns Björnsson (LFR) met í snörun og samanlögðu í 85kg flokki pilta U17.