Íslensku stelpurnar stóðu sig frábærlega í dag, frekari lýsing á mótinu mun koma seinna í dag en úrslit munu fara inn í gagnagrunn sambandsins þegar þau berast: http://results.lsi.is/meet/nordic-championship-ntf-2015
Þuríður Erla Helgadóttir (Ármann) varð í dag norðurlandameistari í -58kg flokki kvenna á Norðurlandameistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fer í Slagelse í Danmörku núna um helgina.
Þuríður lyfti 78kg í snörun sem var bæting um 2kg á íslandsmeti Önnu Huldu Ólafsdóttur sem varð norðurlandameistari 2014 í sama flokki. Íslenska liðið var með öndina í hálsinum eftir að hún hafði klikkað á byrjunarþyngdinni 73kg og fyrri tilraun á 78kg. Þuríður lyfti hinsvegar þyngdinni í lokatilraun og kom sér í yfirburðarstöðu fyrir jafnhendinguna. Þar lyfti hún síðan 97kg sem jafnframt var bæting á hennar eigin íslandsmeti um 1kg. Hún reyndi við 104kg í lokatilrauninni sem hefði verið persónulegt met.
Oddrún Eik Gylfadóttir (Ármann) keppti einnig í sama flokki og hefur átt betri daga á pallinum, hún fór með opnunarþyngdirnar sínar 64kg í snörun og 77kg í jafnhendingu. Hún endaði í 6.sæti í -58kg flokki.
Hjördís Ósk Óskarsdóttir (FH) varð önnur í -63kg flokki kvenna, hún snaraði 70kg og jafnhenti 102kg. Í lokatilraun reyndi hún við 106kg sem hún rétt missti í efstu stöðu.
Freyja Mist Ólafsdóttir (LFR) keppti síðan síðust íslensku keppandanna í dag og lyfti 76kg í snörun og 92kg í jafnhendingu sem gáfu henni bronsverðlaun eftir æsi spennandi keppni við hina dönsku Karina Hauge en þær lyftu sömu þyngd en Karina var 2kg léttari og fékk því silfur.
