Hægt er að nálgast úrslit frá mótinu í gagnagrunni LSÍ: http://results.lsi.is/meet/nordic-junioryouth-championship-2014 (við munum bæta við heildarúrslitum um leið og við fáum þau í hendurnar.)
Hægt er að horfa á upptöku af mótinu á eftir farandi vefsíðu: http://bambuser.com/v/5025403
Keppni í pilta flokki hefst klukkan 9:00 á íslenskum tíma á morgun.
Stelpurnar okkar stóðu sig með stakri prýði á norðurlandamóti unglinga í ólympískum lyftingum sem fram fór í Landskrona í Svíþjóð í dag (25.október). Afrek dagsins átti Lilja Lind Helgadóttir (LFG) þegar hún lyfti 103kg í jafnhendingu og bætti þar með Norðurlandamet meyja (20 ára og yngri) í jafnhendingu um 1kg sem var í eigu Meri Ilmarinen frá Finnlandi sett 2011. Meri verður meðal keppenda á HM í ólympískum lyftingum sem hefst í Almaty í Kazakstan 8.Nóvember næstkomandi.
Sólveig Sigurðardóttir (LFG) hóf leikin í dag en hún keppti í -63kg flokki 20 ára og yngri, þar opnaði hún á 55kg í snörun en vegna tæknilegra vandamála á ritaraborði þurfti hún síðan að stökkva í 63kg. Hún klikkaði á þeirri þyngd í fyrstu tilraun en hafði hana í þriðju og síðustu tilraun, með því bætti hún íslandsmet sitt í stúlkna flokki um 2kg. Í jafnhendingu lyfti hún 70kg og 75kg en klikkaði á 80kg í þriðju tilraun, þessi heildar árangur færði henni bronsverðlaun í -63kg flokki og nýtt íslandsmet stúlkna í heildar árangri 138kg.
Næstar til leiks voru Freyja Mist Ólafsdóttir (LFR) og Auður Ása Maríasdóttir (LFG) þær kepptu í -75kg flokki. Það var nokkur barátta á milli þeirra en svo fór að Freyja Mist stóð uppi sem sigurvegari en hún lyfti samtals 145kg (65/80) á móti 138kg (63/75) Auðar Ásu. Fyrsti Norðurlanda titillinn til Íslands var því staðreynd.
Að lokum keppti Lilja Lind Helgadóttir (LFG) í +75kg flokki, hún opnaði örugglega á 80kg og reyndi síðan tvisvar sinnum við 85kg í snörun sem var tilraun til nýs norðurlandamets stúlkna. Í jafnhendingunni lyfti hún eins og áður sagði 103kg eftir að hafa opnað á 96kg og síðan fengið 100kg ógild í annari lyftu. Hún vann að sjálfsögðu gullverðlaun. Lilja heldur á morgun til Finnlands í viku æfingabúðir þar sem hún mun m.a. æfa með landsliði finna sem eru í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið í lyftingum. Lilja Lind verður síðan meðal keppenda á Evrópumeistaramóti Unglinga (EWF) sem fram fer í Limassol á Kýpur daganna 20-29. Nóvember. Hægt er að sjá skráningarlistann á eftirfarandi vefsíðu: http://ewfed.com/documents/2014/Limassol_2014/Limassol_by_cat.htm en 376 lyftingamenn og konur eru skráðar til leiks frá 36 landssamböndum.


