Fréttatilkynning frá Lyftingasambandi Íslands
Núna um helgina 27-28 október 2012 fer fram Norðurlandamót unglinga í Ólympískum lyftingum í Parkano í Finnlandi. Ísland mun senda 3. keppendur sem eru öll að fara að keppa um verðlaunasæti og vonandi verður það gullverðlaunasæti ef allt gengur eftir áætlun.
Keppendur fyrir Íslands hönd verða;
Katrín Tanja Davíðsdóttir, Íslandsmethafi í meyjaflokki, sem hefur einnig náð glæsilegum árangri í Crossfit.
Lilja Lind Helgadóttir, sem er Íslandsmethafi í stúlknaflokki.
Sindri Pétur Ingimundarsson, sem er Íslandsmethafi í drengjaflokki.
Íslensku keppendurnir hafa lagt hart að sér á undanförnum misserum til þess að ná sem bestum árangri á þessu móti og hafa verið að æfa stíft niðri í lyftingaaðstöðu Ármanns í Laugabóli.
Mikil aukning hefur verið á iðkendafjölda Ólympískra lyftinga undanfarið og hefur iðkendafjöldinn margfaldast á undanförnum árum og er óhætt að segja að það vanti tilfinnanlega betri aðstöðu til þess að hægt sé að halda áfram þeirri uppbyggingu sem er hafin í þessari fornfrægu íþróttagrein.
Hægt verður að fylgjast með mótinu á eftirfarandi vefslóð http://bambuser.com/channel/parkanonpuntti og hefst mótið kl. 09.00 að íslenskum tíma á laugardaginn.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á http://www.parkanonpuntti.net/pm-2012/schedule/