Íslendingar með glæsilegan árangur á Norðurlandamóti ungmenna í ólympískum lyftingum

Norðurlandamót ungmenna, U17 og U20 fór fram síðustu helgina í nóvember í höfuðstöðvum Eleiko í Halmstad í Svíþjóð. Eleiko er eitt fremsta fyrirtæki heims í lyftingabúnaði og hefur framleitt stangir og lóð fyrir heimsmeistaramót í ólympískum lyftingum frá árinu 1963. Fyrirtækið var einnig fyrst til að framleiða gúmmíhúðaðar stálplötur og mótaði litakerfið sem notað er í dag: grænar plötur 1 og 10 kg, gular 1,5 og 15 kg, bláar 2 og 20 kg og rauðar 2,5 og 25 kg.

Ísland sendi sterkt lið til keppni að þessu sinni, tíu keppendur alls, fimm í U17 og fimm í U20. Liðið átti margar glæsilegar frammistöður og náði í verðlaunasæti í fjölmörgum flokkum.


U17 – Mikil og góð reynsla

Birna Ólafsdóttir – hetjuleg barátta

Birna Ólafsdóttir var fyrst til að stíga á pallinn fyrir Íslands hönd. Hún sýndi mikinn karakter í snörun þar sem hún náði 45 kg í þriðju tilraun eftir tvær mjög tæpar lyftur í sömu þyngd. Í jafnhendingu opnaði hún í 50 kg, hækkaði í 55 kg og náði þeirri þyngd í þriðju tilraun. Því miður var lyftan dæmd ógild vegna „press out“. Birna lauk keppni með 95 kg í samanlögðu og góða reynslu í farteskinu.


Sterkir drengir í -88 kg flokki

Í -88 kg flokki átti Ísland tvo keppendur þá Guðjón Gauta Vignisson og Kristófer Loga Hauksson.

  • Guðjón Gauti Vignisson snaraði þyngst 90 kg. Í jafnhendingu lyfti hann þyngst 112 kg og reyndi síðan við 117 kg sem tókst ekki.
  • Kristófer Logi Hauksson snaraði þyngst 92 kg og 116 kg í jafnhendingu. Hann lyfti 120 kg í þriðju tilraun, en lyftan var dæmd ógild.

Þeir enduðu báðir á verðlaunapalli:
Guðjón Gauti í 3. sæti með 202 kg, og Kristófer Logi í 2. sæti með 208 kg í samanlögðu.


Hólmfríður og Steindís luku U17 keppninni með stæl

Hólmfríður Bjartmarsdóttir – öflug frammistaða í +77 kg

Hólmfríður náði öllum þremur snörunum: 55 kg, 60 kg og 63 kg. Í jafnhendingu lyfti hún 70 kg og 75 kg og reyndi síðan við 80 kg sem hún náði að koma upp fyrir höfuð en ekki að læsa olnbogunum. Hún lauk keppni með 138 kg í samanlögðu, þetta skilaði henni þriðja sæti. 

Steindís – stöðug og traust

Steindís keppti í -69 kg flokki. Hún opnaði í öruggum 60 kg í snörun, lyfti síðan 64 kg og reyndi að lokum við 67 kg sem rétt misheppnaðist. Í jafnhendingu náði hún öllum sínum lyftum: 75 kg, 80 kg og 84 kg. Hún endaði því með 148 kg í samanlögðu.


U20 – Glæsilegur seinni dagur hjá íslenska liðinu

Emilía með góða frammistöðu

Emilía Nótt Davíðsdóttir var fyrst á svið í U20. Hún keppti í -69 kg flokki og lyfti 68 kg í snörun í fyrstu tilraun en bætti við 71 kg í annarri tilraun. Í jafnhendingu opnaði hún í 90 kg, mistókst 94 kg í fyrstu en náði þeirir þyngd glæsilega í þriðju tilraun. Emilía endaði með 165 kg í samanlögðu.


Rökkvi tryggði sér silfur eftir æsispennandi keppni í -88 kg

Í flokki þar sem Ísland, Svíþjóð og Finnland háðu harða baráttu um verðlaunasætin, sýndi Rökkvi Hrafn Guðnason mikla festu. Hann lyfti 115 kg í snörun, Finninn 113 kg og Svíinn 117 kg. Rökkvi reyndi við 118 kg en náði ekki.

Í jafnhendingu opnaði Svíinn í 140 kg, en Rökkvi svaraði með 143 kg. Þá hækkaði hann í 148 kg og negldi lyftuna. Svíinn reyndi við 149 kg en mistókst, sem tryggði Rökkva 2. sætið. Hann reyndi síðan við 151 kg í lokin sem fór upp, en var dæmd ógild.


Freyja Björt – 6 af 6 og 3. sæti í -58 kg

Freyja Björt Svavarsdóttir átti stórkostlegt mót og fékk allar sex lyftur gildar.

  • Snörun: 60 kg, 62 kg, 64 kg
  • Jafnhending: 80 kg, 83 kg, 85 kg

Þessi stöðugi og öflugi árangur tryggði henni verðskuldaðan verðlaunapening í sínum flokki.


Tindur í -94 kg, traust frammistaða og brons

Tindur Eliasen opnaði öruggur í 110 kg í snörun, hækkaði í 115 kg og endaði á 120 kg. Í jafnhendingu náði hann 132 kg, fékk 141 kg dæmt ógilt og missti að lokum 146 kg.
Hann endaði samt sem áður með 252 kg í samanlögðu og 3. sæti í -94 kg flokki.


Þórbergur tryggði Íslandi Norðurlandameistaratitilinn

Síðastur á svið var Þórbergur Ernir Hlynsson, sem var fullur sjálfstrausts. Markmið hans var skýrt: að verða bæði Norðurlandameistari U20 og stigahæsti karllyftari mótsins. Undirbúningurinn hafði þó ekki verið ákjósanlegur eftir höfuðhögg á EM U20 fyrr á árinu.

Þórbergur og helsti keppinautur hans, finnskur lyftari, fylgdust að í baráttunni. Eftir þokkalega jafna snörun þar sem Þórbergur hafði þó 4 kg forskot þegar í jafnhendinguna var komið. Finninn opnaði í 163 kg, Þórbergur í 165 kg og hélt forystunni. Þegar Finninn lyfti 173 kg í sinni síðustu tilraun þurfti Þórbergur að ákveða hvort hann ætti að tryggja titilinn eða taka séns á að ná bæði titlinum og hæstu stigunum. Útreikningar þjálfara og liðsfélaga Þórbergs voru skýr þar sem 178 kg voru nauðsynleg.

Þórbergur lagði allt undir. Hann lyfti stönginni upp af öryggi og yfirvegun, framkvæmdi jafnhöttunina (e. jerk) fullkomlega og tryggði sér með því bæði Norðurlandameistaratitilinn 2025 og titilinn stigahæsti lyftari mótsins. Algjör stórsigur fyrir Þórberg og íslenska landsliðið.

Við óskum okkar frábæru ungmennum til hamingju með vel heppnaða ferð. Að sögn þjálfara var öll ferðin til fyrirmyndar og mikil samheldni sem einkenndi hópinn, sem jókst eftir því sem leið á.

Framtíðini er svo sannarlega björt! Áfram Ísland.

Færðu inn athugasemd